Björn Ingi Baldvinsson er nítján ára gamall nemandi á fjórða ári á félagsfræðibraut við Menntaskólann við Hamrahlíð þar sem hann þekkir hvern krók og kima eftir að hafa „byggt“ nákvæma eftirlíkingu af skólanum í tölvuleiknum Minecraft.

Skólabyggingin var nokkur þolinmæðisvinna enda hugaði hann að ótal smáatriðum auk þess sem segja má að hann hafi verið í lífshættu á meðan hann stóð í stafrænni byggingarvinnunni þar sem hann vann í stillingu sem gerir hann berskjaldaðan fyrir árásum annarra spilara.

„Ég var að þessu í rúmlega tvo og hálfan mánuð,“ segir Björn Ingi og bætir við að hann hafi verið að vinna í sumar. „Þannig að ég var bara að gera þetta þegar mér leiddist.“

Kláraði grunnskólann fyrst

„Ég byggði Árbæjarskóla í fyrra en man nú ekki af hverju mér datt í hug að reisa grunnskólann minn í Minecraft,“ segir Björn Ingi þegar hann er spurður hvað varð til þess að hann réðist í það þolinmæðisverk að byggja MH. „Ég gerði það allavegana og síðan langaði mig líka að byggja MH.“

Hann segir Minecraft vera þess eðlis að stundum langi hann til þess að gera eitthvað þar en viti ekki nákvæmlega hvað. „Og þá finnst mér voða gaman að byggja eitthvað úr raunveruleikanum vegna þess að þá er maður með alveg fast plan um hvað maður ætlar sér að gera.“

Byggt á busakorti

Björn Ingi hófst handa við smíðina í lok júlí þegar skólinn var lokaður en „það er kort af skólanum inni á heimasíðu MH sem allir busar fá og ég man eftir að hafa fengið þetta kort af báðum hæðunum,“ segir Björn Ingi sem studdist við kortið þar til hann komst inn í bygginguna sjálfa á ný.

Í kortinu eru þó eyður sem hann fyllti upp í eftir minni og lagfærði enn meira þegar skólinn byrjaði. „Þá fór ég og fullvissaði mig um að allt væri á sínum stað,“ segir Björn Ingi sem lagði reglustiku á kortið til þess að allir kvarðar og hlutföll væru rétt.

Hættuspil?

Björn Ingi lauk við byggingu MH í því sem kallað er „survival mode“ í Minecraft en það felur í sér að spilarar geta ekki athafnað sig óáreittir ólíkt „creative mode“ þar sem leikmenn eru almáttugir í leiknum og geta gert hvað sem þeim dettur í hug og notast við allt sem leikurinn býður upp á.

„Í „survival mode“ snýst þetta um að þú ert í raun leikmaður inni í heiminum og þú þarft að lifa. Sjá fyrir þér og passa að enginn komi og drepi þig,“ segir Björn Ingi og hlær þegar hann er spurður hvort hann hafi verið í „lífshættu“ við húsbygginguna. Hann gerir ekki mikið úr háskanum, truflunum og áreiti þar sem hann var kominn vel á veg í leiknum og hafði komið sér vel fyrir þar áður en hann hófst handa.

Mikil ánægja með MH í MH

Björn Ingi segir aðspurður að stafræn eftirlíking hans af skólanum hafi strax vakið mikla athygli og ánægju innan steinsteyptra veggja MH, bæði hjá nemendum og kennurum.

Hann byrjaði á að vekja athygli á þessu í Facebook-hópi nemendafélagsins sem telur um 800 manns sem létu um 300 „lækum“ rigna yfir skólabygginguna. „Öllum fannst þetta ótrúlega flott og nemendafélagið bað meira að segja um eintak af heiminum á USB-lykli til varðveislu í skjalasafni nemendafélagsins.“

Björn Ingi opnaði aðgang að skólanum á sérstökum netþjóni þar sem talsverður gestagangur hefur verið í skólanum. „Það hafa samt ekki allir tök á að fara inn á Minecraft-serv­era,“ segir Björn Ingi sem býður alla sem við slíkt ráða velkomna á:
s21.hosthorde.com:26367.