Sveita­setrið Kántrýbær á Skaga­strönd hefur verið boðið til sölu á tæpar 36 milljónir.

Bók­halds­þjónusta Suður­nesja keypti Kántrýbæ á Skaga­strönd á nauðungar­upp­boði fyrir 10 milljónir í septem­ber síðastliðnum. Á­sett verð eignarinnar nú er rúmlega þrisvar sinnum hærra eða 35,9 milljónir. Bruna­bóta­mat eignarinnar er 123,5 milljónir króna.

Kántrýbær var áður í eigu hins lands­fræga tón­listar­manns Hall­björns Hjartar­sonar sem rak þar veitinga­hús árum saman. Hall­björn seldi eignina árið 2018.

Í auglýsingu frá fasteignasölunni Valborg er eignin sögð bjóða upp á spennandi tækifæri.

Hér er á ferð kjörið tækifæri fyrir metnaðarfulla einstaklinga að hefja á ný rekstur í þessu landsfræga húsi.

Fasteignasalan Valborg.

Tæpir 400 fermetrar í tveimur húsum

Sam­kvæmt Þjóð­skrá er birt flatar­mál 383,9 fer­metrar en eignin saman­stendur af tveimur húsum; finnsku bjálka­húsi á tveimur hæðum sem byggt var 1998 og eldra timbur­húsi sem byggt var 1945 en var endur­gert að hluta 1998.

Húsið er á tveimur hæðum. Á neðri hæð þess er veitinga­staður með tveimur sölum, bar, kaffi­bar, sviði, veislu­eld­húsi og fimm salernum. Á efri hæð þess er stór salur, 4 her­bergi, bað­her­bergi og geymsla. Gott út­sýni er af efri hæð hússins í allar áttir.

Húsið gæti einnig nýst sem íbúðarhús upp á 254,9 fermetra, með möguleika á að breyta eldra húsi í bílskúr, skemmu eða eitthvað þvíumlíkt, sem væri þá 129 fermetrar.

Fasteignasalan Valborg.

Sveitarfélag í sókn

Á vef fast­eigna­sölunnar Val­borgar er eftir­farandi texti úr ára­móta­pistli sveita­stjórnar Skag­astrandar birtur með leyfi:

„Skaga­strönd státar af öflugu skóla­starfi, hvort sem litið er til leik- eða grunn­skóla. Sveitar­fé­lagið styður við frí­stunda­starf barna og ung­menna með ríf­legum styrk sem er hærri en gengur og gerist annars staðar. Umf Fram í sam­starfi við sveitar­fé­lagið heldur uppi fjöl­breyttu og hvetjandi starfi fyrir ung­menni á staðnum sem krakkarnir njóta góðs af og eru dug­leg að nýta sér.

Á Skaga­strönd er líka gott að vera roskin manneskja. Bæjar­stjóri leyfir sér að full­yrða að á fáum hjúkrunar­heimilum sé hugsað um fólk af eins mikilli alúð og nær­gætni og gert er á Sæ­borg, en það hefur hún séð með eigin augum. Það er dýr­mætt fyrir öll sam­fé­lög og ekki eitt­hvað sem hægt er að taka sem sjálf­sögðum hlut.

Sveitar­fé­lagið hefur að undan­förnu ráðist í ýmsar að­gerðir til að bæta lífs­gæðin á Skaga­strönd, svo sem í um­fangs­mikið við­hald á eignum sveitar­fé­lagsins, m.a. á Fells­borg og fé­lags­legum í­búðum. Stærstu fjár­festingarnar og þær sem mest ber á hafa legið í mal­bikunar­fram­kvæmdum og byggingu á nýrri smá­báta­höfn í sam­starfi við Vega­gerðina. Eftir hvort tveggja verður á­sýnd bæjarins og að­staðan við smá­báta­höfnina til fyrir­myndar. Það á vel við, því nú er kominn tími til að gera smá­báta­út­gerðinni hátt undir höfði, sem er ein af grunn­stoðum at­vinnu­vegar á Skaga­strönd.“

Fasteignasalan Valborg.
Fasteignasalan Valborg.
Fasteignasalan Valborg.
Fasteignasalan Valborg.