Birgir Þór Björns­son, einn þátta­stjórn­enda hlað­varpsins Tíu jar­danna, býður fram krafta fé­laga síns til margra ára, lands­liðskörfu­bolta­mannsins Kristófers Acox í hina vin­sælu bresku raun­veru­leika­þætti Love Is­land á Twitter í dag. Færslan hefur vakið mikla at­hygli.

Sjötta sería þáttanna er nú í sýningu en þættirnir hverfast um hóp af föngulegu ungu fólki sem eyðir tíma saman í glæsi­villu. Þar para þau sig saman, reyna að finna ástina og hreppa verðlaunafé á milli þess sem nýtt fólk bætist í hópinn, sem flækir gjarnan leikinn.

Ljóst er að Birgir er afar spenntur fyrir hug­myndinni um að Kristófer taki þátt í næstu seríu, ef marka má tíst hans, sem hann skrifar á ensku. Flestir kannast ef­laust við Kristófer, enda fyrir löngu stimplað sig inn sem einn af betri mönnum landsins í körfu­bolta, bæði með Ís­lands­meisturum KR og lands­liðinu.

„Hey @LoveIs­land ef þið viljið bæta við twisti í næstu seríu með því að bæta einum út­lendingi við, að þá er besti vinur minn @krisacox að leita að ástinni!“ skrifar Birgir og lætur fylgja með mynd af kappanum.

Hann bætir við í há­stöfum: „Ég meina sjáið manninn, hann er eld­heitur!“ Kristófer sjálfur virðist ekki ýkja spenntur en hann svarar færslu vinar síns með einum vand­ræða­legum Michael Scott úr vin­sælu grín­þáttum Office.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Birgir að Kristófer þurfi ást og það strax og vill ekkert gefa upp um hvort grín sé að ræða, þó það sé nokkuð ljóst.

„Drengurinn þarf ein­fald­lega ást og það STRAX,“ segir Birgir og hefur engu við það að bæta. Nú er boltinn hjá for­svars­mönnum Love Is­land.