Verkefnið er einstaklega hagnýtt því árlegt markaðsvirði afurða úr burnirót er að minnsta kosti 3,5 milljarðar króna og eftirspurn vex stöðugt eða um hartnær 8 prósent á ári, að sögn vísindafólks við HÍ.

Í verkefninu er meðal annars horft til vistfræði, efnaframleiðslu, erfðafjölbreytni og skyldleika plöntunnar, að sögn Þóru Ellenar Þórhallsdóttur, prófessors í grasafræði við HÍ, en hún leiðir rannsóknateymið sem fékk styrk úr Tækniþróunarsjóði til rannsókna á burnirótinni.

„Burnirót er vafalaust ein allra verðmætasta lækningaplantan í íslensku flórunni,“ segir Þóra Ellen. „Á láglendi er hún núna nánast bundin við kletta, gljúfur og hólma en þar sem búfjárbeit er lítil á hálendinu finnst hún sums staðar í stórum breiðum í mólendi og deigu landi. Svo vex burnirót uppi á mjög hrjóstrugum fjöllum, til dæmis á Vestfjörðum. Ég held að burnirót hafi eitthvað verið safnað hér á landi síðastliðinn áratug og á að minnsta kosti einum stað á miðhálendinu sé ég að hún virðist vera horfin og ég tel líklegra að það sé vegna söfnunar frekar en beitar. Það er jarðstöngullinn sem er notaður og því þarf að grafa alla plöntuna upp.“

Þóra Ellen segir að burnirótarplöntur verði settar í tilraunaræktun í tvö ár til að bera saman vaxtarhraða og eiginleika ólíkra stofna og leiðir þeirra til fjölgunar.

„Þótt burnirót finnist í öllum landshlutum, allt frá sjávarmáli og upp í 1.000 metra hæð, þá er hún alls ekki algeng. Áreiðanlega hefur burnirót verið víðar áður fyrr en hún er mjög eftirsótt beitarjurt og hverfur þar sem sauðfjárbeit er stöðug,“ segir Þóra Ellen, sem hefur sérhæft sig í gróðurframvindu, blómgunarlíffræði og í verðmætum náttúru sem allt skiptir máli í þessu verkefni, auk þess sem hún hefur beint sjónum að loftslagsbreytingum í rannsóknum sínum.

Notuð til að auka einbeitingu og líkamlegt þol

„Burnirót er notuð gegn stressi og þróttleysi og til að auka einbeitingu og úthald. Klínískar rannsóknir virðast styðja við þessa verkun þótt hún sé ekki að fullu sönnuð og þörf sé á ítarlegri rannsóknum. Þá má nefna að burnirót hefur sýnt mótverkandi áhrif gegn veirum og öndunarfærasjúkdómum af þeirra völdum og rannsóknir hafa meðal annars beinst að áhrifum hennar á æðasjúkdóma, krabbamein og sykursýki. Í þessu verkefni koma saman aðilar sem vilja finna bestu leið fyrir ræktun burnirótar á Íslandi með afurðum sem markaðssetja má sem sjálfbært framleidda hágæðavöru.“

Fjölfræðilegt verkefni – ryður burt hindrunum

Þau sem koma að verkefninu frá HÍ eru til dæmis grasafræðingur, erfðafræðingur og tveir lyfjafræðingar og sérfræðingar í náttúruefnum. Þóra Ellen er eins og áður sagði verkefnisstjóri, en auk hennar koma eftirfarandi vísindamenn að verkefninu: Snæbjörn Pálsson, prófessor í stofnlíffræði, Elín Soffía Ólafsdóttir, prófessor í lyfja- og efnafræði náttúruefna, og Maonian Xu, sérfræðingur hjá Heilbrigðisvísindastofnun. Aðrir þátttakendur eru María Eymundsdóttir og Pálmi Jónsson sem reka Hulduland í Skagafirði þar sem tilraunaræktun burnirótarinnar mun fara fram og Guðrún Marteinsdóttir, prófessor í fiski- og fiskavistfræði við HÍ, en hún er frumkvöðull í hagnýtingu náttúruefna, ekki síst úr sjó og er einnig stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins Taramar.

Möguleikar á nýrri búgrein

Þóra Ellen segir að með verkefninu skapist möguleikar fyrir nýja aukabúgrein hjá íslenskum bændum og skilgreint verði framleiðsluferli sem leiðir til þess að ný verðmæt afurð spretti á markaði sem íslensk fyrirtæki á snyrtivöru-, náttúrulyfja- og fæðubótarefnamarkaði, geti nýtt sér.

„Samstarfsaðilar okkar, Florealis og PureNatura, fá tækifæri til að kaupa og markaðssetja íslenska burnirót sem sjálfbæra hágæðavöru. Eins og staðan er nú er enginn hér á landi sem framleiðir jurtir eftir þeim kröfum sem gerðar eru til hráefna jurtalyfja. Mikil efnahagsleg tækifæri felast í ræktun lækningajurta á Íslandi, meðal annars þar sem framboð á hráefnum hefur í mörgum tilfellum verið af skornum skammti vegna mikilla þurrka í Evrópu og víðar síðastliðin ár. Samkeppnin er hörð og framleiðendum hefur farið fækkandi, sérstaklega þeim sem framleiða hráefni sem samræmast kröfum lyfjayfirvalda. Horft er til Íslands varðandi hreinleika og því mikill áhugi bæði í nálægum og fjarlægum löndum um kaup á íslensku hráefni.“