Annað kvöld klukkan níu stígur hópurinn á svið á Húrra og skemmtir gestum sínum af list og lyst og í ofanálag verður slegið í bingó þar sem glæsilegir vinningar verða í boði.

En hvernig er burlesque-sýning?

„Hún samanstendur af stuttum atriðum þar sem fólk er að leika sér að því að vera fyndið, fara út úr kynjakassanum og nýta hæfileika sína,“ segir Helga Thoroddsen, flúrari og myndlistarmaður.

„Stutt atriði fyrir fullorðna þar sem blandast saman bæði hæfileikar, húmor og kynþokki,“ bætir María Kristín Steinsson, ljósmyndari og magadansmær, við.

Sýningin á morgun verður með svokölluðu nerdlesque-yfirbragði þar sem áhrifa gætir úr dægurmenningu.

„Þar verða ýmsar frægar persónur úr bíómyndum og teiknimyndum, tölvuleikjum og jafnvel auglýsingum að skemmta sér og öðrum,“ segja þær leyndardómsfullar á svip.

Vildi finna sitt sexí

Dömur og herra hafa verið starfandi í tvö ár.

„Við kynntumst í burlesque-tímum hjá Margréti Erlu Maack í Kramhúsinu í janúar 2017 og nokkrum mánuðum síðar settum við upp okkar fyrstu sýningu,“ segir María. „Þessi hópur small svo vel saman að við höfum verið starfandi síðan og sett upp sýningar reglulega.“

Helga segist hafa heillast af leiknum sem fylgir burlesque-listforminu.

„Ég byrjaði í burlesque af því að mig langaði að reyna að finna mitt sexí sem ég var ekki búin að finna áður en svo kom fljótlega þörfin fyrir að búa til atriði og fara á svið,“ segir hún.

María kynntist burlesque þegar hún bjó í London.

„Ég var í magadansi og heillaðist af þessu listformi og frelsinu til að geta gert það sem mig langaði til að gera. Ég lifi fyrir þetta, það er bara þannig,“ bætir hún við og brosir.

Þær eru báðar mjög spenntar fyrir sýningunni á laugardaginn.

„Ég sýni dragatriði í fyrsta sinn,“ segir Helga, „og blanda því saman við þverflautuleik en ég lærði á flautu í mörg ár og það er gaman að geta nýtt það.“

María sýnir svokallað klassískt burlesque en hún hefur sérhæft sig í því.

„Þetta er svona það sem fólk hugsar um þegar það heyrir orðið burlesque, fjaðravængir, seiðandi tónlist og mjaðmasveiflur.“

Sýningin og bingóið er lokahnykkurinn í söfnunarátaki hópsins sem stefnir í náms- og rannsóknarleiðangur til New York í lok maí.

„Við höfum lagt allan ágóða af öllum sýningunum okkar frá upphafi í sjóð og ætlum að heimsækja þetta mekka búrlesksins í New York; fara á sýningar og í tíma og sækja okkur innblástur,“ segir Helga.

Þá segja þær hluta hópsins einnig á leið á Brighton Fringe-hátíðina um miðjan maí þar sem hann sýnir tvær sýningar í The Old Market leikhúsinu.

Að lokum hvetja þær stöllur alla sem hafa áhuga á öðruvísi skemmtun til að koma á Húrra annað kvöld.

„Og ekki má gleyma frábærum vinningum. Bingó og burlesque, það gerist ekki betra!“

Nánari upplýsingar á Facebook undir Burlesque+bingó og miðar fást á tix.is og við innganginn.