Leður­jakkinn og buxurnar sem leik­konan Olivia Newton-John klæddist í kvik­myndinni Grea­se seldist á dögunum á upp­boði fyrir fjögur hundruð þúsund dollara, eða um fimm­tíu milljónir ís­lenskra króna, en þetta kemur fram í frétt BBC um málið. Búist var við að búningurinn myndi seljast á tölu­vert lægra verði.

Newton-John, sem fór með hlut­verk Sandy í myndinni, klæddist búningnum fræga í loka­at­riði kvik­myndarinnar þar sem hún syngur lagið „You‘re the One That I Want“ með John Tra­volta sem fór með hlut­verk Danny. Þrátt fyrir að myndin hafi verið gefin út fyrir meira en fjöru­tíu árum er hún enn vin­sæl í dag.

Safnaði nærri tveimur og hálfri milljón dollara

Þá seldist einnig, meðal annars, upp­runa­legt hand­rit leik­konunnar að Grea­se og kjóllinn sem hún klæddist á for­sýningu myndarinnar, en upp­hæðin sem safnaðist á upp­boðinu var 2,4 milljón dollarar eða tæp­lega þrjú hundruð milljón ís­lenskra króna.

Hluti af á­góða sölunnar fer til krabba­meins með­ferðar­stöðvar Newton-John í Ástralíu en nafn kaupandans hefur ekki verið gefið upp. Leik­konan berst nú við brjósta­krabba­mein í þriðja sinn en hún varð 71 árs síðast­liðinn septem­ber.