Benedikt Þorgeirsson og Samúel Drengsson hafa gert stormandi lukku í Vogum á Vatnsleysuströnd með Bumbuborgurum sem þeir opnuðu í vor og hafa nú bætt á sig bjórvömb með því að opna smábrugghúsið Drengsson Brewery sem líklega er minnsta micro-brewery sem sögur fara af innan íslenskrar landhelgi.

„Málið er að það hefur vantað þjónustu hérna síðan Covid byrjaði eftir að veitingastaðurinn og pitsastaðurinn og pöbbinn lokuðu strax í fyrstu bylgju og opnuðu ekki aftur,“ segir Samúel sem freistar þess að fylla skarðið með því að virkja heimabruggs-græjurnar sínar.

„Þess vegna sáum við færi til að vera með bæði Bumbuborgara og Drengsson Brewery undir sama þaki í þessu litla húsnæði. Þetta eru ekki nema 60 fermetrar,“ heldur hann áfram um plássið sem þeir Benedikt fundu í húsi þar sem fyrir voru á fermetrum meðal annars bensínstöð, bæjarskrifstofur, sjúkraþjálfari og naglasnyrtir.

Minnsta brugghúsið

„Mér finnst líklegt að þetta sé minnsta brugghús sem þú finnur þótt víðar væri leitað en á Íslandi. Ég held það sé enginn nógu vitlaus til þess að fara út í að vera með brugghús með 40 lítra lögnum. Þetta er náttúrlega bara gamall draumur hjá mér að vera með microbrewery og ég veit allavegana ekki um minna microbrewery á landinu.“

Samúel segir fyrstu viðtökur slíkar að þeir anni engan veginn eftirspurn. „Þetta eru ekki nema 40 lítra lagnir sem við gerum og ég átti tvær, átti 80 lítra, um helgina. Ég misreiknaði bara aðeins bæjarbúa í Vogunum. Þeir voru bara duglegir þessa helgi,“ segir hann um undirtektirnar sem bjóruppskriftir hans hafa fengið í bæjarfélaginu sem telur um 1.300 íbúa.

„Eins og er náum við ekki að standa undir því sem við komum út á barnum. Við kláruðum fyrstu lögnina strax um helgina þannig að okkar eigin bjór er uppseldur. Ég hugsa að það verði meira komið á kúta hjá mér á föstudaginn. Það er verið að klára fjórar lagnir og þá verður meira magn sem ég hugsa að verði komið á kúta hjá mér á föstudaginn,“ segir bruggarinn brattur.

Ekkert piss

„Ég er sjálfur búinn að vera heimabruggari í mörg ár en við sáum okkur leik á borði að sameina þetta bara inn í Bumbuborgarana þegar við fundum húsnæði með alvöru eldhúsi þar sem við getum líka verið að brugga vegna þess að það er náttúrlega svo gríðarlegur kostnaður í því að starta svona microbrewery og bar.“

Þótt brugghúsið sé nýtt eru afurðir Drengsson margreyndar og Samúel vinnur aðeins með eigin uppskriftir sem hafa þróast í heimabruggi hans. „Það fyrsta sem við gerðum er það sem ég kalla bara Drengsson Every Day Pale Ale. Uppskrift sem ég gerði fyrir einhverjum örfáum árum síðan.“

Samúel segist í raun tefla þessari tegund sinni gegn hinum hefðbundna lager. „Vegna þess að lager er alltaf bragðdaufur fannst mér vanta einhvern svona pale ale sem væri ekki of hár í áfengisprósentu en samt bragðmikill og góður án þess að ganga of langt. En þú færð bragð úr honum og þetta er ekkert svona piss eins og margir kalla það.“

Ekki í ÁTVR

Samúel er einnig með tilbrigði við fyrsta bjórinn, Every Day Mango Pale Ale, og síðan styttist í að þriðja tegundin komi á kútana. „Það er vinsælt að vera með mangó í dag og hann rennur ljúft og er í uppáhaldi hjá mörgum. Síðan erum við að bæta við bjór sem við kjósum að kalla Gay For a Day IPA.

Hann er margprufaður hjá mér líka. Ég er búinn að gera hann í mörg ár og er ekki ennþá búinn að rekast á neinn sem finnst hann ekki góður,“ segir Samúel um þriðja heimabruggið.

„Ég er náttúrlega strax byrjaður að undirbúa jólabjórinn og byrja að gera hann á næstu tveimur vikum. Maður byrjar svona á þessum sem maður er búinn að vera að gera og þrautreyna á sjálfum sér, vinum og vandamönnum.“

Samúel segist aðspurður ekki vera farinn að huga að því að færa út kvíarnar eða tappa á dósir og flöskur. „Ég er ekki á leiðinni með þetta í Ríkið. Ég bara hef ekki framleiðslugetu í það og það borgar sig engan veginn held ég nema maður sé kominn í allavegana 500 lítra lagnir að minnsta kosti,“ segir Samúel og bætir við að hann bíði, eins og fleiri smáhúsabruggarar, eftir meðal annars rýmri löggjöf um sölu og dreifingu afurða sinna.“