Patrick J. Adams, sem gerði garðinn frægan í lögfræðidramaþáttunum Suits ásamt Meghan Markle, fer býsna fögrum orðum um vinkonu sína í röð af færslum á Twitter.
Meghan, hertogaynja af Sussex, hefur átt undir högg að sækja að undanförnu vegna ásakana um að hún hafi lagt starfsfólk í Kensington-höll í einelti meðan hún bjó þar. Meghan hefur sjálf þvertekið fyrir slíkar ásakanir og segir hún að konungsfjölskyldan hafi breitt ósannindi út um hana og Harry Bretaprins, eiginmann hennar.
Patrick, sem vann mjög náið með Meghan meðan þættirnir voru sýndir, segir að hún hafi aldrei sýnt af sér hroka eða ósæmilega hegðun af einhverju tagi.
„Frá fyrsta degi var hún full af eldmóði, samstarfsfús, vingjarnleg, gefandi, glöð og stuðningsrík í garð allra sem komu að gerð þáttanna,“ segir hann og bætir við að Meghan hafi ekki látið frægðina stíga sér til höfuðs þegar þættirnir urðu vinsælir.
Patrick þykir leitt að sjá þá meðferð sem Meghan hefur fengið á síðum breskra fjölmiðla að undanförnu og telur hana eiga betra skilið. Þá vandar hann bresku konungsfjölskyldunni ekki kveðjurnar og segir hana rúna öllum trúverðugleika.
Aðrir fyrrverandi samstarfsmenn Meghan hafa stigið fram að undanförnu henni til varnar. Aaron Korsh, hugmyndasmiðurinn að baki þáttunum, sagði á Twitter-síðu sinni að hún væri sterk kona með gott hjarta. Þá sagði Jon Cowan, einn af handritshöfundum Suits, að hún væri hlý, vingjarnleg og kærleiksrík manneskja.