Elenor­a Rós bakari og rit­höfundur hefur mikla ást­ríðu fyrir rjóma­bollum. Hún hefur á dögunum smakkað ótal margar bollur úr bakaríum höfuð­borgar­svæðisins og heldur betur dýpt sér í bollurnar. Hún fór í átta bakarí og fékk sér tvær til þrjár bollur í hverju bakaríi en á eftir að fara í tvö bakarí í dag á sjálfum bollu­deginum.

„Út­lit hefur of­boðs­lega lítið að segja á móti bragði“ segir Elenor­a en hún segir þó út­lit fá auka stig hjá henni. Frum­leiki og bragð­sam­setning skiptir hana líka máli í hennar stiga­gjöf á­samt á­ferð og bragði. Kaffi­bollur þurfa til dæmis að vera með kaffi­bragði en ekki bara kaffi­keim.

Búin að kynna sér mikið hvað fólk er að sækjast eftir í bollunum
Anton Brink

„Er rjóminn léttur og mjúkur og vegur bragðið vel á móti?“ pælir Elenor­a þar sem bakaríin eiga það stundum til að setja of mikið saman í eina. „Það eru svo mörg bakarí að gera eitt­hvað skemmti­legt núna í dag svo ég vil fá að sjá eitt­hvað nýtt og spennandi.“

Spurð hvað gerir góða bollu góða segir Elenor­a vilja hafa eitt­hvað smá ferskt í bollunni. „Ég er rosa mikið fyrir að bollan sé létt í sér.“ Hún vill hafa vatns­deigið vel gert, „upp­púff­að og djúsí“ segir hún. Þá finnst henni bollan geggjuð og ef fyllingin er upp á tíu.

Hvar eru gerdeigsbollurnar?

Eins og sjá má í bakaríum landsins er ekki mikið um ger­deigs­bollurnar. Vatns­deigs­bollurnar eru að taka yfir en croissant bollur eru farnar að sjást í fleiri og fleiri bakaríum. Elenor­a segir croissant bollurnar hafa fyrst sést fyrir tveimur árum en núna er hægt að sjá meira og meira af þeim og segir hún þær vera mjög vin­sælar hjá fólki. Munurinn á vatns­deigs­bollum og croissant bollum liggur í deiginu sjálfu. Croissant bollur eru bollur úr smjör­deigi sem er rúllað upp í bollur í stað croissants.

Elenor­a hefur mikinn á­huga á­huga á þessum degi og hefur spurst fyrir í bakaríunum hvað er vin­sælast hjá bakaríunum og skoðar sjálf hvað fólk er að sækjast í. Það kom Elenoru á ó­vart að klassíska gamal­dags vatns­deigs­bollann er enn í dag lang vin­sælust.

Bollan sem fær fyrsta sætið hjá Elenoru í ár er súkku­laði og kara­mellu­bollan frá Hyg­ge.