Elenora Rós bakari og rithöfundur hefur mikla ástríðu fyrir rjómabollum. Hún hefur á dögunum smakkað ótal margar bollur úr bakaríum höfuðborgarsvæðisins og heldur betur dýpt sér í bollurnar. Hún fór í átta bakarí og fékk sér tvær til þrjár bollur í hverju bakaríi en á eftir að fara í tvö bakarí í dag á sjálfum bolludeginum.
„Útlit hefur ofboðslega lítið að segja á móti bragði“ segir Elenora en hún segir þó útlit fá auka stig hjá henni. Frumleiki og bragðsamsetning skiptir hana líka máli í hennar stigagjöf ásamt áferð og bragði. Kaffibollur þurfa til dæmis að vera með kaffibragði en ekki bara kaffikeim.

„Er rjóminn léttur og mjúkur og vegur bragðið vel á móti?“ pælir Elenora þar sem bakaríin eiga það stundum til að setja of mikið saman í eina. „Það eru svo mörg bakarí að gera eitthvað skemmtilegt núna í dag svo ég vil fá að sjá eitthvað nýtt og spennandi.“
Spurð hvað gerir góða bollu góða segir Elenora vilja hafa eitthvað smá ferskt í bollunni. „Ég er rosa mikið fyrir að bollan sé létt í sér.“ Hún vill hafa vatnsdeigið vel gert, „upppúffað og djúsí“ segir hún. Þá finnst henni bollan geggjuð og ef fyllingin er upp á tíu.
Hvar eru gerdeigsbollurnar?
Eins og sjá má í bakaríum landsins er ekki mikið um gerdeigsbollurnar. Vatnsdeigsbollurnar eru að taka yfir en croissant bollur eru farnar að sjást í fleiri og fleiri bakaríum. Elenora segir croissant bollurnar hafa fyrst sést fyrir tveimur árum en núna er hægt að sjá meira og meira af þeim og segir hún þær vera mjög vinsælar hjá fólki. Munurinn á vatnsdeigsbollum og croissant bollum liggur í deiginu sjálfu. Croissant bollur eru bollur úr smjördeigi sem er rúllað upp í bollur í stað croissants.
Elenora hefur mikinn áhuga áhuga á þessum degi og hefur spurst fyrir í bakaríunum hvað er vinsælast hjá bakaríunum og skoðar sjálf hvað fólk er að sækjast í. Það kom Elenoru á óvart að klassíska gamaldags vatnsdeigsbollann er enn í dag lang vinsælust.
Bollan sem fær fyrsta sætið hjá Elenoru í ár er súkkulaði og karamellubollan frá Hygge.