„Kæri grunn­skóli, ferðu ekki að byrja aftur? Börnin mín eru svo ó­þekk að mér dvín allur kraftur,“ syngur tón­listar­kennarinn Þórunn Harðar­dóttir meðal annars í mynd­bandi sem slegið hefur í gegn á Face­book síðu hennar. Hún kallar þetta lag hins bugaða for­eldris.

Í sam­tali við Frétta­blaðið segist Þórunn alls ekki hafa átt von á þeim við­brögðum sem hún fékk við mynd­bandinu en horft hefur verið á það rúm­lega 23 þúsund sinnum. Þá hafa rúm­lega 200 manns brugðist við færslunni og ríf­lega 60 manns skrifað um­mæli.

„Þetta er bara svona eins og hjá öllum held ég. Þetta er lík­legast ekkert verra hér en annars staðar,“ segir Þórunn létt í bragði. „Það var annað hvort að gera þetta eða að fara að ryk­suga eða skamma ein­hvern,“ segir hún og hlær.

„Ég bjóst auð­vitað alls ekki við svona miklum við­brögðum. Það virðast 24 þúsund manns vera búnir að horfa á þetta sem er auð­vitað bara al­gjör bilun,“ segir Þórunn. „Það eru greini­lega fleiri í þessari stöðu,“ segir hún og hlær aftur.

„Þetta fer alveg að verða búið!“ segir hún í gríni en grunn­skólarnir hefja göngu sína að nýju í næstu viku.