Fyrsta stiklan úr heimilda­þátta­röðinni Stormi, sem fjallar um bar­áttuna við Co­vid-19 á Ís­landi, var birt í dag. Þar vantar ekki upp á dramatíkina; í stiklunni má sjá fólk í erfiðum að­stæðum ein­angrað á hjúkrunar­heimilum, grátandi ættingja þeirra og Víði Reynis­son, yfir­lög­reglu­þjón hjá al­manna­vörnum, þar sem hann virðist hafa brotnað niður og sést tár­votur í við­tali við fram­leið­endur þáttanna.

„Ég er bara þreyttur og svekktur og allt bara,“ má heyra Víði segja en sam­hengi orðanna er ó­­­ljóst, sem kann jú að þjóna markmiði stiklunnar og gera á­horf­endur spennta fyrir meira efni.

Þátta­röðin Stormur verður sýnd í sex hlutum á RÚV í kringum næstu ára­mót. Þeir Jóhannes Kr. Kristjáns­son fjöl­miðla­maður og Sæ­var Guð­munds­son leik­stjóri hafa unnið að þeim síðan í mars í fyrra þegar far­aldurinn var að byrja hér á landi.

Í til­kynningu frá þeim segir að þeir hafi fylgt fjöl­mörgum ein­stak­lingum í gegnum síðast­liðið ár. „Það sem stendur upp­úr hjá mér er að hafa fengið tæki­færi til að vera bak­sviðs og mynda at­burða­rásina og fólkið sem hefur staðið í þessari bar­áttu frá byrjun. Þetta hefur verið magnað ferða­lag og í stiklunni sem við frum­sýnum í dag sjáum við ör­lítið brot af efninu,“ segir Jóhannes.

Jóhannes Kr. og Sævar Guðmundsson hafa fylgt fjölmörgum einstaklingum í gegnum viðburðaríkt síðasta ár.
Mynd/Bjorn Steinbekk

Í þáttunum er saga Co­vid-19 á Ís­landi sögð út frá ýmsum hliðum með á­herslu á mann­lega þátt far­sóttarinnar. Meðal annars er brugðið upp mynd af því sem gerðist bak­sviðs hjá þrí­eykinu, bar­áttu sjúk­linga við að komast í gegnum veikindin með að­stoð ást­vina og hjúkrunar­fólks, á­laginu á gjör­gæslu- og Co­vid göngu­deildum Land­spítalans, smitrakningu á heims­vísu, rann­sóknum Ís­lenskrar erfða­greiningar og hvernig fólk leysir stór og krefjandi verk­efni í veiru­ó­veðri sem gengur yfir allan heiminn og setti hann á hvolf.

„Fram undan er mikil klippi­vinna því við erum að vinna með tæp­lega 300 töku­daga og sögurnar sem við náum utan um eru mjög sterkar. Þær eru af öllum stærðum og gerðum. Dramatískar erfiðar sjúkra­sögur, hasarinn í kringum þrí­eykið, fyndin eða skemmti­leg upp­á­tæki og gull­fal­legir per­sónu­legir sigrar eru bara brot af þeim sögum sem við sýnum í þessum þáttum. Það sem gerir þetta sér­stak­lega á­huga­vert er að þetta er hlið far­aldursins sem fólk hefur aldrei fengið að sjá áður,“ segir Sæ­var.

Hér fyrir neðan má sjá fyrstu stikluna úr þáttunum: