Bubbi Morthens, einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar, hvetur Íslendinga til að taka ábyrgð á hamfarahlýnuninnni og minnir á loftslagsverkfall nemenda. Skipuleggjendur loftslagsverkfalls á Íslandi boða til allsherjarverkfalls fyrir loftslagið þann 20. september næstkomandi.

„Tuttugasta september ætlar unga fólkið í landinu að minna okkur á hamfarahlýnunina. Við þurfum að taka ábyrgð strax í dag,“ segir Bubbi í myndbandi sem hann birti á Facebook í dag.

Mótmælendur munu ganga frá Hallgrímskirkju að Austurvelli kl. 17:00 og verða ávörp og tónlistaratriði á dagskrá.

„Takk Bubbi fyrir að standa með okkur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ svöruðu skipuleggjendur verkfallsins.

Í stuðningsmyndbandi Bubba syngur hann nýtt lag samið sérstaklega fyrir loftslagsverkfallið. Hægt er að sjá myndbandið hér að neðan.

Landssamtök íslenskra stúdenta hafa komið saman á hverjum föstudegi milli 12 og 13 frá því í febrúar til að mótmæla aðgerðaleysi stjórnvalda í baráttunni við loftslagsbreytingar. Verk­fallið er inn­blásið af hinni sænsku Gretu Thun­berg.

Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um allsherjarverkfallið hér.