„Nei, nei, nei. Ég lenti í óhappi með gas,“ segir tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens og gerir lítið úr nýlegu óhappi sem varð þegar hann var að eiga við gas og sprakk í kjölfarið út í nokkuð þrálátum orðrómi um að nýlega hefði hvorki meira né minna en kviknað í sjálfum Bubba Mor­thens þegar hann var að grilla og hann væri nokkuð illa brunninn.

„Ég var ekkert að grilla, ég var að fylla á brennara og það lak og það kom svona einhver eldsúla. Það er ekkert svo langt síðan,“ segir Bubbi.

Þar sem er reykur er þó yfirleitt eldur og kjaftasagan um brenndan Bubba á sér einhverja stoð í raunveruleikanum þótt hún sé veik og lítill neisti hafi orðið að full miklu báli.

„Þetta er bara eins og gengur og gerist. Það eru falsfréttir alls staðar,“ segir Bubbi og skilur vel að mörgum hafi þótt skjóta skökku við að hann væri að grilla í febrúar.

„Ég brann alveg sko, en þetta var ekkert alvarlegt,“ segir Bubbi og gerir grín að flökkusögunni. „Auðvitað segir fólk þetta: Jú, jú. Bubbi Morthens, það kviknaði í honum. En jæja, ókei, áfram Úkraína!“