„Stundum tekur lífið óvænta stefnu, tilveran breytist og núverandi plön þurfa að víkja fyrir mikilvægari verkefnum,“ skrifar Rakel Björk Björnsdóttir söng- og leikkona í færslu á Instagram, en hún og tónlistarmaðurinn Garðar Borgþórsson, eða Gaddi, eins og hann er kallaður eiga von á barni í byrjun næsta árs.

„Við Gaddi eigum von á barni í byrjun febrúar og getum ekki beðið eftir því að fylgja litla ljósberanum í gegnum lífið. Litli laumufarþeginn hefur, nú þegar, leikið Bubba Morthens með mömmu sinni í leikhúsinu og tekið þátt í trylltu dansleikhúsi með Kristjáni Ingimarssyni í Room 4.1. En mamman hefur nú tekið ákvörðun um að stíga út úr 9 líf og einbeita sér að því að taka á móti „9“ lífi,“ skrifar Rakel, en hún hefur túlkað hlutverk Bubba Morthesn á unglingsárunum í fyrrnefndu leikriti, á fjölum Borgarleikhússins.

Bubbi fyrstur með fréttirnar

„Til gamans má geta að elsku Bubbi, með sinni næmni, tjáði mér skömmu fyrir daginn örlagaríka að ég ætti von á barni og var því fyrstur til að flytja mér fréttirnar. Dálítið táknrænt,“ skrifar Rakel.