Bubbi Morthens og Auður leiða saman hesta sína í nýjum hausts­lagara. Þetta kemur fram í til­kynningu. Lagið mun koma út á miðnætti í kvöld.

Lagið ber nafnið Tárin falla hægt og er þeirra fyrsta sam­starfs­verk­efni. Stórir gítarar, stríðstrommur og angur­vær hljóð­heimur ein­kenna lagið, að því er segir í til­kynningunni. Tón­listar­mennirnir eru báðir þekktir fyrir að opna sig upp á gátt í lögum sínum.

Auður hefur ekki gefið út nýtt lag frá því hann gaf út EP plötuna Venus í fyrra. Í júní í fyrra sagði Þjóð­leik­húsið að það hefði á­sakanir á hendur tón­listar­manninum til skoðunar.

Átti hann að semja tón­list í leik­sýningunni Rómeó og Júlíu sem frum­sýnt var í septem­ber í fyrra á­samt Sölku Vals­dóttir en ekkert varð úr því vegna málsins.

Söngvarinn viður­kenndi í apríl á þessu ári í við­tali í Ís­land í dag á Stöð 2 að hann hefði brotið á konum, farið yfir mörk og verið ógnandi. Þar vísaði hann hinsvegar orð­rómum um þöggunar­samninga og brot gegn stúlku undir lög­aldri al­farið á bug og sagði það upp­spuna frá rótum.

Bubbi tjáði sig um við­talið á Twitter og sagðist trúa tón­listar­manninum. Lag Bubba og Auðar kemur út á mið­nætti í kvöld 23. septem­ber, að því er segir í til­kynningunni. Bubbi og Auður eru miklir vinir og átti Auður að koma fram á tón­leikum hins fyrr­nefnda í Hörpu í júní í fyrra, en hætti við vegna á­sakana á hendur honum.