„Það er svo gígantískur munur á gæðum á því sem vínylplata skilar frá sér og því sem kemur út úr símanum og Spotify þar sem það er búið að skera hljóminn úr bassanum,“ segir Bubbi Morthens hæstánægður með að hafa skapað sér tækifæri til þess að njóta hljómsins frá gömlum vínylplötunum sínum.

„Þar er þetta bara miðja sem þú færð í hausinn en alls konar svona fínerí í hljóðinu, það hverfur,“ segir Bubbi fullur eftirvæntingar eftir að rifja upp kynnin við fjöldann allan af þeim plötum sem leynast í safni hans. „Það er bara þannig að vínyllinn er hið heilaga gral.

Ég á til dæmis Bítlaplötur sem ég fékk frá elsta bróður mínum en þær eru sumar frá 1964 og það er algjörlega tryllt að spila þær. Þær eru auðvitað smá rispaðar. En veistu hvað? Ég var að spila þetta í gær því ég fór í smá kast að hlusta á þessar plötur og það var alveg magnað að heyra mónó-plötu frá 1964 í upprunalegri hljóðblöndun.“

Frelsið selt á fyrsta geisladiskinum

Bubbi segir aðspurður að nokkuð langt sé síðan hann átti plötuspilara en sá síðasti hafi horfið með dularfullum hætti.

„Alvöru plötuspilara hef ég ekki átt síðan fyrsti geisladiskurinn kom út á Íslandi,“ en svo skemmtilega vill til að fyrsti geisladiskurinn sem kom út hér á landi var einmitt platan hans Frelsi til sölu sem kom út árið 1987.

„Ég hef alltaf verið mikill græjukall og þá fékk ég mér geislaspilara og vínylspilarinn hvarf. Ég veit ekki einu sinni hvað varð um hann. Magnarinn og allt hvarf og allt í einu var bara eins og ég hefði aldrei átt plötuspilara,“ segir Bubbi sem þó gerði sér hægt og rólega grein fyrir því að ekkert kæmi í stað gömlu plötunnar.

„Líka þar sem ég er að gefa plöturnar mínar út á vínyl í dag þá er það í raun mjög ankannalegt að ég skuli ekki vera að hlusta á þær á vínyl.“

Falinn fjársjóður

Þegar Bubbi er spurður út í umfang plötusafnsins segist hann ekki koma því öllu fyrir við nýju græjurnar í stofunni. Hann liggi því á talsvert fleiri plötum og inni á milli leynist fágætir dýrgripir.

„Ég er með rosalega mikið af test-pressum frá mér og öðrum listamönnum. Þannig að þar leynast sjaldgæfir hlutir,“ segir Bubbi og nefnir sérstaklega prufuþrykk frá sænska dúettinum Roxette.

„Hún María heitin var ágætis vinkona mín og ég kynntist henni á þeim tíma sem ég var sem mest í Svíþjóð og Roxette var að byrja. En aðallega horfi ég löngunaraugum á Bítlaplöturnar og ég get ekki beðið eftir að fara í gegnum þær.“