Bubbi Morthens var bólusettur við Covid-19 með bóluefninu AstraZeneca í morgun.

„Ég er alveg temmilega histerískur,“ segir Bubbi aðspurður um bóluefnið umtalaða og hvort hann hafi þegið bólusetningu kvíðalaust.

„Ég held ef þú heyrir endalaust í fréttum að fólk sé að deyja af AstraZeneca, þá síast það bara inn þótt það komi svo í ljós að það eru bara sex sem fá alvarlegar aukaverkanir af hverri milljón,“ segir Bubbi og setur líkurnar í íslenskt samhengi: „Ég meina, við erum 350 þúsund manns.“

„Kommon Bubbi láttu ekki svona.“

„Ég var mikið að pæla, á ég að gera þetta eða á ég ekki að gera þetta, því það eru nokkrir í kringum mig sem hafa ákveðið að þiggja þetta ekki, en svo hugsaði ég bara: „kommon Bubbi láttu ekki svona.“ Ég er búinn að lenda í öllum andskotanum í lífinu, ég hef slegist, og og tekið allskonar og farið í gegnum svo marga hluti sem eru miklu alvarlegri en þetta,“ segir Bubbi og viðurkennir að hafa fundið fyrir bæði kvíða og stressi fyrir bólusetninguna.

„Ég hef hugsað þetta mikið, síðast í bílnum á leiðinnni í morgun var ég að hugsa: „Á ég að gera þetta eða á ég ekki að gera þetta,“ segir Bubbi.

„Maður bara stígur inn í óttann en ég viðurkenni að ég var kvíðinn og stressaður.“

„Svo bara gerir maður þetta. Maður bara stígur inn í óttann en ég bara viðurkenni að ég var kvíðinn og stressaður. Ég er eins og Woody Allen, ef ég fæ hausverk, þá finn ég fyrir heilaæxlinu. Svona er ég bara bæði stressaður og ímyndunarveikur,“ segir Bubbi.

Engin hughreysting í bólusetningu Þórólfs

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir var bólusettur með Astrazeneca en Bubbi segir það hafa veitt sér litla hughreystingu gegn histeríunni.

„Hann er ekki hálfur Dani og einn fjórði Norðmaður,“ segir Bubbi um Þórólf.

„Það er sagt að þetta lyf hafi haft ömurleg áhrif þar og þess vegna stoppuðu þeir þetta. Og ég er ekki nema einn fjórði Íslendingur, segir Bubbi kíminn en skellihlær svo og undirstrikar að þetta hafi gengið eins og í sögu í morgun og hann sé eldhress.

„Þetta er bara stöngin inn“

Bubbi var fyrstur allra í Laugardalshöll í morgun.

„Ég var kominn þarna klukkan níu í morgun. Fyrstur inn og fyrstur út. Ég var farinn út 10 mínútur yfir níu,“ segir Bubbi. Fyrirkomulagið í höllinn hafi verið frábært.

Fréttablaðið/Stefán

„Þetta er bara stöngin inn sko. Þetta var rosa flott,“ segir Bubbi og lýsir svo færibandinu í höllinni:

„Það var biðröð sko, en svo er bara skipt í raðir og farið á þær, bara bara þessi röð, þessi röð, þessi röð, og svo bara stungið, stungið, stungið, stungið, bíðið í tíu mínútur og svo út, út, út, út, bara eins og færiband,“ segir Bubbi með velþóknun.

Hann leggur líka áherslu á samstöðuna: „Því fleiri sem verða bólusettir því fyrr líkur þessu hjá okkur.“

Fréttablaðið/Stefán.

Ætlar að vera skynsamur í dag

Aðspurður um líðanina eftir bólusetninguna segist Bubbi vera eldhress.

„Vinir mínir eru búnir að vera veikir, beinverkir, hita og sviti, en það er til marks um að kerfið er að kikkstarta,“ segir Bubbi.

„Ef ég vakna í nótt með beinverki og hita, þá fæ ég mér bara kók.“

Hann ætlar að verja deginum í rólegheitunum og vera skynsamur. „Ég fer kannski að vinna í garðinum í rólegheitunum. Ég ætla ekki að fara að keyra á lyftingum og veseni,“ segir Bubbi en er þó við öllu búinn:

„Svo ætla ég að eiga CocaCola í ísskápnum áður en ég fer að sofa og ef ég vakna í nótt með beinverki og hita, þá fæ ég mér bara kók.“