Þorláksmessutónleikar Bubba Morthens fá að fara fram á fimmtudag eins og áætlað var. Í tilkynningu segir að náðst hafi samkomulag um undanþágu vegna tónleikanna sem verða í Hörpu þann 23. desember.
„Þetta er mikill léttir, þetta hefur legið í loftinu og núna þegar þetta skellur á með svona litlum fyrirvara er maður þakklátur að hægt sé að klára þetta á þessum forsendum,“ segir Bubbi.
Tónleikarnir seldust hratt upp á sínum tíma en einnig verður boðið upp á beint streymi frá Eldborgarsal Hörpu í sjónvarpi Símans og Vodafone en allar nánari upplýsingar um það má finna á heimasíðunni bubbi.is.