Eiður hefur starfað við viðhald, smíði og viðgerðir af ýmsum toga í 25 ár og er því mikill reynslubolti. Hann segir áríðandi að fólk fylgist vel með ástandi eigna svo hægt sé að koma í veg fyrir alvarlegt tjón og nefnir nokkur atriði sem gott er að huga að.

Svæði sem vert er að huga að

Það er ýmislegt sem fólk getur byrjað á að skoða sjálft. „Ef það er gott og öruggt aðgengi upp á þak er gott að skoða hvort flasningar, klæðningar, skrúfur eða naglar hafi losnað, sérstaklega eftir stormasaman vetur eins og var núna,“ skýrir Eiður frá.

„Það er líka gott að skoða ástandið á gluggakörmum og glerlistum, sérstaklega neðri póst og botnlistann þar sem vatn situr mest á þessum flötum. Ef gluggapóstar eða listar eru fúnir og farnir að leka getur það skemmt verulega frá sér og það er oft hægt að sponsa í og laga glugga ef það er gert í tæka tíð. Ég mæli líka með að athuga rennur og hreinsa þær af laufblöðum og öðru en stíflaðar rennur eru algeng ástæða fyrir leka.“

Afleiðingarnar af sinnuleysi hvað þetta varðar geta verið afdrifaríkar. „Það þarf að fylgjast vel með til þess að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Ef gluggi er til dæmis byrjaður að fúna og það er byrjað að leka í gegnum hann þá getur það farið inn í steypuna og getur farið inn í hús eða íbúðina fyrir neðan þannig að það er mikilvægt og mun ódýrara að bregðast við áður en það er komið í óefni.“

Framkvæmdir og brúðkaup

Fyrir tveimur árum fluttu Eiður og kona hans, Edith Oddsteinsdóttir, í 380 fermetra raðhús í Breiðholti. Þau fóru í umfangsmiklar framkvæmdir og kom yfirgripsmikil þekking og reynsla Eiðs, sem rekur nú eigið fyrirtæki undir heitinu Eis, þar að góðum notum.

Hann segir framkvæmdirnar hafa gengið framar öllum vonum. „Það þurfti að gera allt, skipta um allt gler, reyndar voru gluggarnir allir sem betur fer góðir og hafði verið haldið vel við þannig að ég slapp með að skipta bara um gler og glerlista. Svo fórum við í viðgerðir á sprungum og gerðum nýja innkeyrslu og lögðum hita í hana og pall fyrir framan. Við gerðum það allt saman bara sjálf. Við gerðum tvær íbúðir í kjallaranum, eina fyrir unglinginn og aðra til útleigu.

Ég var tvo mánuði að rífa allt út og setja allt nýtt inn og við vorum flutt inn á gólf 20. júní og giftum okkur 23. júní. Konan sagði við mig um morguninn: „Þetta var ekki alveg það sem ég hafði hugsað mér,“ en það var enginn spegill kominn upp og borðplatan var bara gömul hurð. En við vorum flutt inn og við giftum okkur og það eru að verða komin tvö ár síðan,“ segir Eiður og hlær. „Svo erum við bara búin að vera að gera þetta smátt og smátt eins og við höfum efni á og núna er þetta að verða flott, við erum að fara í bakgarðinn núna og setja heitan pott og pall fyrir krakkana.“

Pallurinn og potturinn munu án vafa koma að góðum notum fyrir fjölskylduna sem nú telur sex manns. „Við konan erum búin að vera saman í fjögur ár, hún átti tvö börn fyrir, ég eitt og svo eignuðumst við eitt saman.“

Lumarðu á einhverjum ráðum fyrir fólk sem hyggst fara í framkvæmdir?

„Undirbúa sig vel og ekki spara í efnið.“