Brynjar Níels­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, tekur nú út fimm daga sótt­kví eftir ferða­lag til Spánar yfir páskana.

Brynjar slapp við það að vera sendur í sótt­varnar­hús enda var reglu­gerð heilbrigðisráð­herra breytt áður en hann kom heim og svo er Spánn ekki talið á­hættu­svæði.

„Nei nei þá hefði ég komið í fanga­búningi. Ég fékk að fara heim. Spánn var ekki eld­rautt land,“ segir Brynjar léttur.

Brynjar greindi frá því á sam­fé­lags­miðlinum Twitter í dag að honum hafi borist ýmsar gjafir í sótt­kvínni frá vinum og vanda­mönnum.

„Það er út af því að ég er náttúru­legu þekktur vælu­kjói og hef talað um það að synir mínir skildu eftir dót fyrir utan. Þá fóru bara fleiri að skilja eftir dót hérna fyrir utan, meðal annars rauð­víns­flösku,“ segir Brynjar afar sáttur með gjafirnar. „Þannig ein­hverjum er um­hugað um kallinn,“ bætir hann við léttur.

Heppilega var konan með annars hefði Brynjar verið sendur í sveit

Arn­fríður Einars­dóttir, Lands­réttar­dómari og eigin­kona Brynjars fór með honum til Spánar. „Við vorum saman úti annars hefði þetta verið aðeins flóknara hefði ég verið einn úti. Þá hefði hún bara sent mig upp í sumar­bú­stað og látið mig dúsa þar einan,“ segir Brynjar og bætir við að það yrði meira frí fyrir hana en sig.

Brynjar losnar úr sóttkví á morgun. Hann segist hins vegar hafa nýtt tímann vel og búinn að vera á fjar­fundum í allan dag.

Spurður um hvort hann muni fara beint út að hlaupa þegar sótt­kvínni lýkur svarar Brynjar því neitandi.

„Ætli ég fari ekki bara beint á þingið og verð á kvöld­fundum þar.“

Spurður að lokum um hvort það sé ekki betra að taka út sótt­kvína heima en á hóteli, segir hann það muni helling að fá að vera heima hjá sér. „Þannig maður af­plánar þetta bara,“ segir Brynjar að lokum.