„Þetta er lag til að hlusta á þegar maður þarf smá stuðning,“ segir tón­listar­konan Brynja Bjarna­dóttir um ný­út­komið lag sitt, My oh My. „Þegar manni líður eins og allt sé í fokki er gott að hlusta á þetta lag. En þetta er líka smá partí, þetta er ekkert sorg­legt lag,“ segir hún glottandi.

My oh My er síðasta smá­skífan af væntan­legri plötu Brynju sem kemur út 20. októ­ber. Lagið á sér­stakan stað í hjarta hennar en textinn er eins konar upp­gjör við krefjandi tíma í lífi tón­listar­konunnar.

Ó­á­kveðin á erfiðum tímum

„Þetta lag er skrifað á erfiðum tíma og fjallar um ó­á­kveðni. Þegar maður bara lamast í á­kvarðana­töku,“ út­skýrir hún. „Þegar það er ein­hver ó­reiða á mörgum sviðum í lífi manns. Maður er að reyna að taka á­kvarðanir en allt er í smá rugli.“

Brynja segir að svona hafi til­veran verið í kringum heims­far­aldurinn. Hún hafi verið að ganga í gegnum erfið sam­bands­slit og lífið hafi verið í lausu lofti. „Mér finnst eftir þetta, eins og ó­á­kveðni og það að vita ekki alveg hvað maður vill, sé miklu erfiðari til­finning en að vita hvað maður vill og fá það ekki,“ segir hún hugsi. „Því að þá getur maður hugsað: Jæja, og haldið á­fram.“

Tók stökkið

Brynja segir mikil­vægt að fólk hlusti á sjálft sig því annars geti manni á endanum liðið eins og tíminn líði stefnu­laust. „Maður verður að muna að hafa þolin­mæði fyrir sjálfum sér. Þetta kemur allt á endanum,“ segir hún glettin og játar því að­spurð að í laginu felist á­kveðið upp­gjör.

„Já, ég myndi segja það. Eigin­lega. Ég hugsaði líka um að kannski væri ó­þægi­legt að deila þessu. Það eru svo margir við­riðnir þetta,“ segir Brynja en bætir svo við að á móti komi að fólk gangi í gegnum alls konar hluti á lífs­leiðinni, og því hafi hún tekið stökkið.

Hvað er ást?

Brynja segir að þegar fólk standi á við­líka kross­götum fari það gjarnan að spyrja spurninga á borð við: Hvað er ást? Er ástin bara spenna? Hún bætir við að á þeim um­brota­tíma þegar texti lagsins varð til, hafi fólk stöðugt verið að reyna að gefa henni alls konar ráð.

„Mér fannst svona smá eins og þessi ráð þýddu ekkert fyrir mig. En mér leið eins og það væri engin hand­bók til. Maður verður að finna út úr hlutunum sjálfur.“

Þótt breið­skífa Brynju komi út eftir rétt tæpan mánuð verða út­gáfu­tón­leikar hennar ekki fyrr en í febrúar. „Þá fer ég á fullt og verð líka með list­sýningu,“ segir Brynja sem lærði hljóð­tækni í Hollandi og hlust­enda­hópur hennar er því nokkuð skiptur milli landanna tveggja, Ís­lands og Hollands.

„Þegar ég byrjaði að semja var það alveg nýtt fyrir mér. Eitt sumarið pikkaði ég upp gítarinn og samdi lög alveg út í bláinn. Ég ætlaði mér alltaf að verða dansari.“