Leikhópurinn Handbendi Brúðuleikhús sýnir verkið Sæhjarta í Tjarnarbíói á morgun, miðvikudaginn 19. febrúar, og lokasýning verður 27. febrúar. Þarna er um að ræða blöndu brúðuleiks og hefðbundins leikhúss.

Handbendi Brúðuleikhús er brúðuleikhús með höfuðstöðvar á Hvammstanga þar sem leikhúsið setur upp frumsamdar sýningar sem ferðast um allan heim. Leikhúsið er leitt af Gretu Clough, fyrrverandi listamanni hússins hjá hinu heimsfræga Little Angel Theatre í London. Greta hefur unnið til verðlauna fyrir gæði og frumleika í brúðulistum, og sem leikskáld. Hún er fædd í Vermont-fylki í Bandaríkjunum, lærði og bjó í Lundúnum um fjórtán ára skeið og hefur búið á Hvammstanga í næstum fimm ár.

Annar raunveruleiki

Hún skrifaði handrit sýningarinnar og er leikari í henni. Eiginmaður hennar Sigurður Líndal Þórisson er leikstjóri. Í sýningunni vinnur leikhópurinn með gamlar sagnir um urtur sem komu á land og fóru úr selshamnum til að búa og elska meðal manna.

Greta með brúðunum að segja sögu um áföll og vanrækslu.

Greta er spurð um efni sýningarinnar og segir: „Bróðir minn er geðklofi og ég hef alltaf verð forvitin um það hvernig það sé að vera manneskja sem býr í öðrum raunveruleika en aðrir. Sjálf er ég manneskja sem gekk inn í annan menningarheim og því fylgir tilfinningin um að vera á vissan hátt einhver annar. Í verkinu er ég að túlka þessar hugmyndir um annan raunveruleika og blanda saman við sögurnar um urturnar sem koma á land. Þjóðsögur hafa alltaf heillað mig og ég ólst upp við þær í Bandaríkjunum. Þjóðsögur og brúðuleikhús smellpassa saman.“

Hún er ein á sviðinu með brúðunum. „Þær eru tæki fyrir sagnamanninn. Sagan er ekki þægileg, hún fjallar um áföll og vanrækslu. Sýningin er ekki ætluð börnum, sjálf vildi ég ekki að dóttir mín sæi hana.“

Krefjandi íslenska

Sýningin á morgun er á ensku en lokasýningin 27. febrúar verður á íslensku. „Ég skrifaði handritið upphaflega á ensku og þýðandinn minn skilaði frábæru verki. Íslenskan á verkinu er einstaklega falleg, ljóðrænan sprettur af síðunum. Textinn er flókinn fyrir manneskju sem talar ekki reiprennandi íslensku. Ég er búin að æfa mig mikið og það er mjög krefjandi fyrir mig að flytja sýningu á íslensku.“

Hún mun ferðast með sýninguna víða um Evrópu, þar á meðal verður farið til Póllands, Úkraínu, Króatíu og mjög líklega Englands. Í fimm ár hefur hún síðan ferðast um með brúðusýningu fyrir ungbörn, 0-18 mánaða. „Þetta er sýning um litla stjörnu og börnin fá að snerta hluti og sýna mikil viðbrögð.“

Á síðasta ári sýndi hún 170 sýningar víða um Evrópu. „Fólk er hrifið af brúðuleikhúsi, ekki bara börn heldur líka fullorðnir. Brúðuleikhús getur verið svo margs konar og þess vegna hefur það lifað allt af.“