Kona og karl­maður á þrí­tugs­aldri brutust inn á landar­eign Elísa­betar Bret­lands­drottningar í Windsor kastala síðast­liðinn sunnu­dag og eru öryggis­mál nú í endur­skoðun. Þetta er full­yrt í um­fjöllun breska miðilsins The Sun.

Þar segir að parið hafi klifrað yfir girðinguna á lóðinni. Þau hafi komist á svæði þar sem drottningin gengur alla­jafna um með hundana sína.

Hefur miðillinn eftir Ken Wharfe, fyrr­verandi líf­verði drottningarinnar til sjö ára, að slíkar upp­á­komur séu á­vallt litnar afar al­var­legum augum. „Þetta er virki­lega mikið á­hyggju­efni og ljóst að hlutirnir þurfa að breytast,“ segir Wharfe.

Ljóst er að starfs­lið hefur kallað til lög­reglunnar vegna parsins. Parið var hand­tekið á staðnum og flutt á lög­reglu­stöð. Hefur The Sun eftir heimildar­manni sínum að parið hafi spókað sig um á svæðinu í all­nokkurn tíma áður en nokkuð var gert.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem tekist hefur að brjótast inn á svæðið. Einungis sex dögum fyrr hafði konu fyrir mis­tök verið hleypt inn á svæðið af líf­vörðum drottningarinnar. Hún full­yrti að hún væri unnusta Andrésar Breta­prinsar en var að lokum hand­tekin og kærð fyrir til­raun til þjófnaðs.