Bandaríska leikkonan Denise Richards gekk að eiga unnusta sinn og samstarfsmann Aaron Phypres nú helgina. Parið setti upp hringana í byrjun ágúst en þau hafa verið saman frá því í desember á síðasta ári. Athöfnin fór fram í Malibu í Kaliforníu og var einungis nánum vinum og vandamönnum boðið til hennar.

Að veislunni lokinni brunuðu brúðhjónin í burtu á forláta mótorhjóli, bæði skælbrosandi og sæl.

Aðdáendur sjónvarpsþáttanna The real houswifes of Beverly Hills ættu að kannast við nýbakaðan eiginmann Denise þaðan en þau fara bæði með hlutverk í þáttunum. Húsmæður virðast eiga upp á pallborðið hjá Aaron en hann var þar til nýlega kvæntur leikkonunni Nicollette Sheridan sem fór á sínum tíma með hlutverk hinnar vergjörnu Edie Britt í sjónvarpsþáttunum vinsælu Desperate Housewifes.

Denise Richards var áður gift vandraæðapésanum Charlie Sheen en þau eiga tvær dætur saman sem eru nú á táningsaldri en auk þess á Denise unga dóttur sem hún ættleiddi eftir skilnaðinn frá Charlie. Honum var boðið til brúðkaupsins en heimildir herma að hann hafi ekki látið sjá sig.