þegar brunað er niður brekkurnar á skíðum, snjóbretti eða sleða, eða þegar fólk leikur listir sínar á skautum er alltaf mikilvægt að huga að örygginu. Þótt vetraríþróttir séu skemmtilegar þá geta þær verið slysagildra sé ekki farið varlega.

Sama hvaða vetraríþrótt verður fyrir valinu er mikilvægt að halda á sér hita. Gott er að klæða sig í ull næst sér og eitthvað vind- og vatnshelt yst. Þegar hitastig líkamans helst passlegt eyðir hann minni orku í að reyna að hita sig upp og meiri orka getur farið í íþróttina sjálfa.

Það getur verið gaman að bruna niður brekkurnar á snjóþotu.

Þó að kalt sé úti er mikilvægt að bera á sig sólarvörn þegar vetraríþróttir eru stundaðar. Hvort sem fólk er á skíðum, sleða, skautum eða snjóbretti er sólvarvörnin mikilvæg. Sólarljósið endurkastast af snjónum í andlitið á þeim sem eru úti að njóta vetrarins og fólk getur brunnið auðveldlega, jafnvel þótt skýjað sé.

Sleði

Þegar farið er á sleða er öruggast að nota stýrissleða með góðum handföngum svo hægt sé að stjórna ferðinni. Auðvelt er að missa stjórn á heimatilbúnum sleðum eins og plastpokum, sérstaklega ef brekkan er brött. Það er mikilvægt að gæta þess alltaf að hafa gott bil á milli sleða svo að ekki verði árekstur í miðri brekkunni. Þegar brekkan er valin er líka mikilvægt að nægur snjór sé í henni og að hún endi á öruggum stað en ekki við til dæmis umferðargötu.

Þegar farið er á skauta er mikilvægt að renna sér bara á öruggu svelli.

Skautar

Ef ætlunin er að renna sér á skautum er alltaf öruggast að renna sér á manngerðu skautasvelli eins og í Skautahöllinni eða Egilshöll fyrir fólk á höfuðborgarsvæðinu. Það getur verið skemmtilegt að skauta á frosnu vatni í náttúrunni en þá þarf að vera viss um að ísinn sé nógu þykkur. Stundum hafa bæjarfélög skafið hluta af vötnum eða tjörnum til skautaiðkunar og þá ætti að vera hægt að fá upplýsingar hjá þeim um öryggi svellsins. Aldrei skal skauta á svelli sem ekki hefur verið gefið út að sé öruggt. Þótt ísinn virðist öruggur í fyrstu er aldrei að vita hvar hann er of þunnur til að ráða við þyngd heillar manneskju.

Skíði og snjóbretti

Þegar farið er á skíði eða snjóbretti er mikilvægt að búnaðurinn sé í lagi og passi notandanum. Það er mjög mikilvægt að nota hjálm þegar brunað er niður brekkur á skíðum eða snjóbretti, einnig er mikilvægt að nota skíðagleraugu því sólarljósið sem endurkastast af hvítum snjónum getur auðveldlega blindað fólk. Einnig er ráðlagt að brettafólk noti hné- og olnbogahlífar. Einnig getur verið gott fyrir byrjendur að vera með mjúkan púða á buxnarassinum til að draga úr hættu á meiðslum við fall.

Fyrir byrjendur er einnig gott ráð að fá smá kennslu hjá skíða- eða snjóbrettakennara áður en farið er af stað, það minnkar líkur á slysum ef fólk kann réttu tæknina við að stoppa, beygja og stjórna hraðanum niður brekkurnar.