Ég hef alltaf haft gaman af því að hjóla en þegar maður er orðinn jafn þungur og ég skerðist jafnvægistilfinningin og þá eru þríhjól frábær kostur fyrir þá sem vilja hjóla sig úr yfirþyngd,“ segir Ingibjörg Elsa sem um miðjan ágúst tók á móti sérsmíðuðu þríhjóli frá hollenska framleiðandanum Van Raam.

„Ég rakst fyrst á þríhjól í Byko og prófaði að hjóla en komst að raun um að reiðhjól eru almennt ekki gerð fyrir fólk yfir 120 kíló. Ég er nú þyngri en það og komst á snoðir um Van Raam-hjólin hjá Sigurði Jóhannessyni á hjolastolar.is. Van Raam-fyrirtækið hefur að leiðarljósi að hjólreiðar séu aðgengilegar fyrir alla og því ákvað ég að láta sérsmíða handa mér Van Raam-hjól sem þolir allt að 150 kíló þótt ég sé ekki orðin það þung,“ segir Ingibjörg á glæstu þríhjólinu sem hún lét sprauta fagurrautt með speglum og ljósum sem uppfylla ströngustu öryggiskröfur.

„Þríhjól eru ákaflega skemmtileg farartæki og allt önnur upplifun að hjóla á þeim en tvíhjóli,“ segir Ingibjörg sem setti sér það markmið að grennast með hjólreiðunum.

„Mig langar að komast út úr offitunni því þegar maður er orðinn þyngri en 120 kíló á maður orðið erfiðara með gang þar sem ökklar og hné bólgna fljótt. Hins vegar getur maður hjólað óspart og mikið, ekki síst á þríhjóli þar sem maður spyrnir fram á pedalana sem veldur minna álagi á hné,“ upplýsir Ingibjörg sem missti þrjú kíló á þríhjólinu fyrstu þrjár vikurnar.

„Ég fann strax hvernig fæturnir styrktust og ég fór að finna fyrir vöðvum í maga og baki. Þetta var áreynsla og ég svitnaði upp í háls og hafði hjólað um 60 kílómetra í blíðviðrinu í ágúst. Ég hefði aldrei getað gengið eða skokkað þá leið en fór létt með að hjóla hana og hjóla nú daglega fjóra til átta kílómetra,“ segir Ingibjörg.

Á pari við Porche-bíla

Ingibjörg Elsa býr á Selfossi þar sem sléttlent er að mestu.

„Það er hægt að fá þríhjólin sem rafhjól en ég kærði mig ekki um þá freistingu og valdi þess í stað að puða. Ef ég byggi í Reykjavík hefði ég eflaust fengið mér rafhjól til að nota upp mestu brekkurnar en hér á Selfossi er það óþarft,“ segir Ingibjörg Elsa sem vakið hefur mikla eftirtekt í bílabænum Selfossi.

„Jújú, vitaskuld snúa sér margir við til að horfa. Hér á Selfossi eru margir á rosalega flottum bílum og taka strax eftir að þríhjólið er ekkert venjulegt hjól heldur alvöru græjuhjól með nýjustu tækni. Því er ég iðulega stoppuð og spurð út í hjólið og nokkrir í viðbót hafa nú pantað sér sérsmíðað hjól frá Van Raam, en fyrir fólk í venjulegum þyngdarflokki er hægt að kaupa þríhjól í Erninum, Byko, Húsasmiðjunni og víðar,“ upplýsir Ingibjörg Elsa sem er einn af stofnendum Hins íslenska þríhjólafélags á Facebook.

Hjólið vekur athygli enda alvöru græja. Ingibjörg segir einstakt að hjóla því og njóta útivistar.

„Þríhjól eru frábær heilsubót fyrir fólk í yfirþyngd sem þarf auðvitað að hreyfa sig. Þau eru auðveld í notkun og veit ég um 95 ára bandaríska konu sem hafði ekki hjólað frá árinu 1923 sem fékk sér þríhjól og hóf hjólreiðar. Þetta er öruggur ferðamáti því þríhjólin reyna lítið á jafnvægi, dekkin eru lítil sem gerir hjólið liprara og þyngdarpunkturinn er lágur sem veldur því að erfitt er að velta því,“ upplýsir Ingibjörg Elsa um Van Raam sem hún segir á pari við Porche í bílum.

„Það er ofboðslega mjúkt, þægilegt og gott að hjóla á Van Ramm-þríhjóli og vissulega er það vistvænn fararskjóti. Ég held að framtíðin muni snúast um rafbíla, rafhjól, rafskutlur og svona hjól; þetta eru hjól framtíðarinnar sem mæta kröfum allra sem vilja hjóla.“

Líður betur á líkama og sál

Draumur Ingibjargar Elsu eru malbikaðir hjólastígar hringinn í kringum landið.

„Ég nýt útiverunnar mikið og á hjóli tekur maður allt öðruvísi eftir umhverfinu. Hjólið er í raun eins og hægindastóll og auðvelt að stoppa og láta fara vel um sig til að njóta umhverfis og náttúru. Þetta er notalegur ferðamáti en krefst samt áreynslu,“ segir Ingibjörg á þríhjólinu sem er lengra en hefðbundið tvíhjól og 75 sentimetrar á breidd.

„Hjólið nær um 15 kílómetra hraða á klukkustund en hjólreiðarnar snúast ekki um að fara hratt heldur að hreyfa sig og stunda útiveru. Ég hef nokkrum sinnum hjólað hringinn í kringum Selfoss og bíð þess að hjólreiðastígurinn niður á Eyrarbakka verði kláraður til að komast í hjólatúr þangað. Þá mundi ég örugglega fara hringinn í kringum landið ef hægt væri og auðvitað borðleggjandi að leggja þannig hjólastíg vegna mikillar umferðar hjólreiðafólks um Þjóðveg 1,“ segir Ingibjörg Elsa; svo miklu sprækari, liðugri og úthaldsmeiri eftir hjólreiðarnar.

„Mér finnst þetta yndislegt. Ég er einhverf og hef glímt við geðræn veikindi og það hefur hjálpað mér að fara út að hjóla í klukkutíma; maður verður aftur eins og 10 ára glatt barn. Það versta við offitu er svo að fólk festist í eigin líkama og á erfitt með að hreyfa sig en þá er þríhjól það besta sem getur komið fyrir það; á hjólinu öðlast það frelsi og finnur hvernig hreyfingin getur hjálpað því úr fjötrum offitunnar,“ segir Ingibjörg sem fer á gönguskíði þegar landið fer í vetrarskrúðann.

„Maður á að gera allt í lífinu sem fær mann til að hoppa glaður fram úr rúminu á morgnana,” segir Ingibjörg sem er nú í doktorsnámi í þýðingafræði við Háskóla Íslands.

„Þar vinn ég að rannsóknum um vélþýðingar fyrir íslenskuna og reyni að bjarga henni frá stafrænum dauða á netinu.“