Brooklyn Beckham er orðinn þekkt nafn í fyrirsætubransanum. „Ég er heppnasti maður í heimi,“ skrifaði Brooklyn sem er 21 árs, með mynd af parinu á Instagram en hann er með 12,2 milljónir fylgjenda á síðunni. Sú heppna, Nicola Peltz, er 25 ára leikkona en þau hafa verið saman frá því í október. Tískutímaritið Vogue skrifaði í mars að þau væru hið nýja eftirlætispar tískuheimsins. Á myndinni sem Brooklyn birti á Instagram er Nicola í gulum, fallegum sumarkjól, en hönnuður hans er verðandi tengdamóðir, Victoria Beckham. Myndin er tekin á sveitasetri Beckham hjónanna í Cotswolds.

Brooklyn með foreldrum sínum, Victoriu og David Beckham.

Trúlofunarhringurinn er engin smásmíði, með smarögðum og demöntum að verðmæti yfir 20 milljónir. Nicola Peltz er bandarísk og hefur leikið í nokkrum bíómyndum og sjónvarpsseríum. Hún er þekktust fyrir leik sinn í Transformers: Age of Extinction. Nicola er dóttir bandarísks milljarðamærings, Nelson Peltz, og Claudia Heffner Peltz, sem er fyrrverandi módel. Nicola er yngst átta systkina. Hún var um tíma kærasta Anwar Hadid sem er bróðir ofurfyrirsætanna, Bellu og Gigi Hadid. Auk þess er hún sögð hafa verið með Justin Bieber um tíma.

Skjáskot af Instagram-síðu Brooklyn þar sem hann tilkynnir um trúlofun sína og Nicolu Peltz.

Brooklyn og Nicola búa saman í New York. Victoria Beckham hefur deilt myndinni af parinu og óskað þeim til hamingju. Sjálf sagðist hún vera himinlifandi með þennan ráðahag. Hvort Victoria muni hanna brúðarkjólinn kemur í ljós á næsta ári þegar brúðkaupið fer fram.

Brooklyn hóf fyrirsætuferil sinn árið 2014 og hefur verið á forsíðum Vogue China, Miss Vogue, Interview, L‘Uomo Vogue, The New York Times Style Magazine og fleiri blöðum. Brooklyn fæddist á Englandi en ólst upp í Madrid á meðan faðir hans lék knattspyrnu með Real Madrid og í Los Angeles þegar David Beckham hélt á vit nýrra ævintýra með LA Galaxy. Brooklyn og systkini hans tala spænsku eins og innfæddir Spánverjar.

Guðforeldrar Brooklyn eru Elton John, David Furnish og Elizabeth Hurley. Búast má við að þau verði öll viðstödd brúðkaupið sem gaman verður að fylgjast með að ári.

Brooklyn og góður vinur fjölskyldunnar, Gordon Ramsay.