Frænka Díönu prinsessu, lafði Kitty Spencer, gekk að eiga sinn heitt elskaða Michael Lewis þann 24. júlí. Athöfnin fór fram á lúxushefðarsetri í Róm. Mikill fjöldi prúðbúinna gesta var viðstaddur brúðkaupið sem vakti mikla athygli.

Það vakti sömuleiðis athygli að faðir brúðarinnar, Charles Spencer jarl, mætti ekki í brúðkaupið en í staðinn gengu bræður hennar tveir með henni inn kirkjugólfið. Jarlinn hefur afsakað fjarveru sína með því að hann sé illa kvalinn í öxl og eigi erfitt með að ferðast.

Brúðhjónin eftir athöfnina.
Facebook/Dolce and Gabbana

Kitty og Michael trúlofuðu sig á síðasta ári. Hann er fráskilinn milljarðamæringur, rúmum þrjátíu árum eldri en hún og fimm árum eldri en faðir hennar. Hann á þrjú uppkomin börn. Michael er alinn upp af vellauðugri fjölskyldu í Suður-Afríku. Afi hans stofnaði risastórt húsgagnafyrirtæki, Lewis Furniture, í Höfðaborg árið 1934. Michael er forstjóri vel þekktar fataverslunarkeðju í Suður-Afríku sem nefnist Foschini LTD en einnig er hann stofnandi líftæknifyrirtækisins ProChon Biotech Limited.

Brúðurin klæddist glæsilegum brúðarkjól frá Dolce & Gabbana sem hönnuðu einnig fjögur önnur brúðardress til skiptanna. Veislan hófst á föstudegi og stóð alla helgina. Kitty, sem er bróðurdóttir Díönu prinsessu, þótti afar tignarleg í brúðarkjólnum sem mörgum fannst minna á kjól frænku hennar á sínum tíma. Kjóllinn er innblásinn af Viktoríutímanum og er gerður úr hvítum blúndum með löngu slöri. Það tók sex mánuði að gera kjólinn. Kitty mun hafa ákveðið að vera ekki með kórónu Spencer-ættarinnar sem móðir hennar bar í sínu brúðkaupi.

Glæsilegur kjóll sem Kitty klæddist eftir athöfnina frá D&G.
Facebook/Dolce and Gabbana

Eftir athöfnina skipti hún um föt og fór í bláan handmálaðan silkikjól. Um kvöldið skipti hún aftur um föt og fór í kokteildress með silfur- og gullperlum.

Kitty hefur starfað sem fyrirsæta, meðal annars fyrir D&G og er með yfir hálfa milljón fylgjenda á Instagram. Stuttu eftir að hún trúlofaðist Michael sýndi hún trúlofunarhring sinni á Instagram en hann mun vera 26 milljóna króna virði. Brúðkaupið var í konunglegum anda en Kitty var viðstödd þegar frændur hennar, prinsarnir Vilhjálmur og Harry, giftu sig.

Villa Aldobrandini þar sem brúðkaupið var haldið stendur á fallegum stað með ótrúlegu útsýni yfir borgina. Í raun er þetta höll í ítölskum barokkstíl. Garðurinn í kring er afar glæsilegur en hann var gerður á árunum 1598-1603. Þar eru aldagamlar styttur og gosbrunnar. Innandyra er málverk á veggjum frá 17. öld. Margir ferðamenn leggja leið sína til Villa Aldobrandini. ■

Enn einn kjóllinn sem Kitty klæddist í brúðkaupinu, handmálað silki.
Facebook/Dolce and Gabbana