Vinsældir sjónvarpsþáttanna Jarðarförin mín, sem Sjónvarp Símans, frumsýndi fyrir tveimur árum, urðu slíkar að hinum bráðfeiga Benedikt, sem Laddi lék, varð ekki í hel komið og framhaldið Brúðkaupið mitt kom í kjölfarið. Jarðarförin vakti á sínum tíma athygli út fyrir landsteinana og þá sérstaklega í Þýskalandi, þar sem þættirnir kepptu á Berlin TV Series Festival. Sjónvarpsstöðin ARTE tók þættina í kjölfarið til sýninga og nú er Brúðkaupið á sömu vegferð eftir að hafa fengið inni á Berlin Series.
„Fyrst og fremst er þetta heiður fyrir þessar dásamlegu seríur að verða fyrir valinu á svona spennandi og vaxandi hátíð sem Berlin TV Series Festival er,“ segir Hörður Rúnarsson hjá Glassriver, sem framleiddi þættina fyrir Sjónvarp Símans.
Hann segir mjög ánægjulegt að sjá þættina fá jafn góð viðbrögð erlendis og raun ber vitni, þótt vinsældirnar hér heima hafi vissulega lofað góðu. „Við erum að skoða framhaldið með ARTE en við gerum sterklega ráð fyrir því að Brúðkaupið endi hjá ARTE í Þýskalandi og Frakklandi. Önnur svæði eru síðan að skoða báðar seríurnar.“

Hörður segir aðspurður að Laddi falli Þjóðverjum greinilega vel í geð. „Sem gleður okkur, enda vita allir hér á landi hvaða gæði fylgja honum og hans verkum.“ Þá spilli ekki fyrir að báðar þáttaraðirnar hverfist um sammannleg efni sem allir geti tengt við.
„Fólk um allan heim getur tengt við eitthvað eins og að standa frammi fyrir dauðanum. Eða vandamálum sem tengjast fjölbreyttu fjölskyldumynstri. Ekki síst þegar stórviðburðir eins og jarðarfarir og brúðkaup eru fram undan.“