Vin­sældir sjón­varps­þáttanna Jarðar­förin mín, sem Sjón­varp Símans, frum­sýndi fyrir tveimur árum, urðu slíkar að hinum bráð­feiga Bene­dikt, sem Laddi lék, varð ekki í hel komið og fram­haldið Brúð­kaupið mitt kom í kjöl­farið. Jarðar­förin vakti á sínum tíma at­hygli út fyrir land­steinana og þá sér­stak­lega í Þýska­landi, þar sem þættirnir kepptu á Berlin TV Series Festi­val. Sjón­varps­stöðin ARTE tók þættina í kjöl­farið til sýninga og nú er Brúð­kaupið á sömu veg­ferð eftir að hafa fengið inni á Berlin Series.

„Fyrst og fremst er þetta heiður fyrir þessar dá­sam­legu seríur að verða fyrir valinu á svona spennandi og vaxandi há­tíð sem Berlin TV Series Festi­val er,“ segir Hörður Rúnars­son hjá Glassri­ver, sem fram­leiddi þættina fyrir Sjón­varp Símans.

Hann segir mjög á­nægju­legt að sjá þættina fá jafn góð við­brögð er­lendis og raun ber vitni, þótt vin­sældirnar hér heima hafi vissu­lega lofað góðu. „Við erum að skoða fram­haldið með ARTE en við gerum sterk­lega ráð fyrir því að Brúð­kaupið endi hjá ARTE í Þýska­landi og Frakk­landi. Önnur svæði eru síðan að skoða báðar seríurnar.“

Hörður segir að­spurður að Laddi falli Þjóð­verjum greini­lega vel í geð. „Sem gleður okkur, enda vita allir hér á landi hvaða gæði fylgja honum og hans verkum.“ Þá spilli ekki fyrir að báðar þátta­raðirnar hverfist um sam­mann­leg efni sem allir geti tengt við.

„Fólk um allan heim getur tengt við eitt­hvað eins og að standa frammi fyrir dauðanum. Eða vanda­málum sem tengjast fjöl­breyttu fjöl­skyldu­mynstri. Ekki síst þegar stór­við­burðir eins og jarðar­farir og brúð­kaup eru fram undan.“