Arna Guðlaug Einarsdóttir kökuskreytingameistari veit fátt skemmtilegra en að baka og skreyta kökur fyrir stóran daginn. Arna gerir ávallt nokkrar brúðartertur á hverju sumri og nýtur þess til fulls enda spilar brúðartertan stórt hlutverk í brúðkaupinu með útliti og bragði.

„Lifandi blóm gera allar kökur fallegar. Það er líka mjög mikilvægt að huga að því að margra hæða kökur geta ekki verið dúnmjúkar. Mínar uppskriftir eru til að mynda allar mjög mjúkar og henta því illa í margra hæða kökur. Til að kökur haldi formi á mörgum hæðum þurfa þær að vera þéttar í sér. Það þýðir ekki að þær séu verri á bragðið en þær eru samt þurrari. Þetta finnst mér mikilvægt að fólk hafi í huga.“

Tertur í anda sveitarómantíkur með lifandi blómum og berjum

Er ákveðnar tegundir brúðarterta vinsælli í dag en aðrar?

„Undanfarið ár hafa brúðarterturnar verið í smærri kantinum, alveg frá 10 manna upp í hámark 50 manna. Þetta svokallaða „rustic look“ með lifandi blómum eða jafnvel berjum hefur verið mjög vinsælt.“

Hvernig er best að skreyta brúðartertu?

„Ég skreyti alltaf daginn fyrir brúðkaupið, þá er ekkert stress, en ef það eru lifandi blóm bæti ég þeim í á síðustu stundu.“

Nakin vanillukaka skreytt með berjum að hætti Örnu.

Vanilla er vinsælasta bragð brúðarterta í heiminum

Ertu til að gefa okkur góð ráð þegar kemur að því að velja brúðartertuna, bæði hvað varðar bragð, lit og skreytingar?

„Vinsælasta bragð brúðarterta í heiminum í dag er vanillubragð. Það er eitthvað sem klikkar aldrei og nær til flestra. Ég myndi hafa sem minnst af óætum skreytingum, eins og borða, fiðrildi og skrautsteina. Því þá þarf að byrja á því að strípa kökuna af öllum skreytingunum áður en hún er skorin. Ef lifandi blóm eru á kökunni er gott að hafa glas af vatni við hlið kökunnar þegar hún er skorin og setja blómin þar þegar að þau eru tekin úr. Þá myndast smá saman fallegur vöndur við hlið kökunnar.“

Ertu til í að svipta hulunni af þinni uppáhalds uppskrift fyrir brúðartertu ársins 2021?

„Ég ætla að gefa uppskrift að skotheldri vanilluköku. Það sem mér finnst líka gaman við vanillukökur er að það er hægt að setja fersk ber eins og jarðarber, hindber og brómber annað hvort í kremið eða ofan á kremið inni í kökunni. Flestar naktar kökur eru líka vanillukökur.“

Fallega skreytt brúðarterta með gyllingu og lifandi blómum.

Gómsæt vanillubrúðarterta að hætti Örnu Guðlaugar

2½ bolli hveiti

2½ tsk. lyftiduft

½ tsk. salt

¾ bolli smjör, við stofuhita

1½ bolli sykur

3 msk. Isio 4 olía

1 msk. vanilludropar (já, matskeið)

4 stór egg, við stofuhita

1¼ bolli nýmjólk

Byrjið á því að hita ofninn í 160°C með viftu en 180°C með yfir og undirhita. Sigtið þurrefnin nema sykurinn saman í skál og leggið til hliðar. Þeytið saman smjör, sykur, Isio 4 og vanilludropana í 3-4 mínútur í hrærivél eða með handþeytara. Bætið eggjunum við einu í einu. Best að skafa skálina með sleikju á þessum tímapunkti. Hellið helmingnum af þurrefnunum í blönduna í hrærivélarskálinni og hrærið vel saman. Blandið mjólkinni rólega saman við. Bætið hinum helmingnum af þurrefnum saman við deigið og hrærið vel saman. Gott er að nota sleikju til að skafa skálina öðru hvoru til að öll hráefnin blandist vel saman. Deilið deiginu í 2-3 form og bakið í um það bil 25 mínútur (tíminn fer eftir stærð forma). Kælið kökurnar á kökugrind áður en þær eru settar saman og skreyttar.

Hvít og tignarleg terta, í stíl við brúðarkjólinn, einföld og bragðgóð.

Vanillusmjörkrem

3 bollar (670 g) smjör

12 bollar (1.380 g) flórsykur

1 msk. vanilludropar

6-7 tsk. mjólk

Smá salt

Þeytið smjörið þar til það er orðið ljóst og kremkennt.

Hellið helmingnum af flórsykrinum út í smjörið og hrærið vel saman. Bætið vanilludropunum, fjórum til fimm matskeiðum af mjólk og smá af salti út í blönduna.

Bætið að lokum restinni af flórsykrinum við og hrærið vel saman. Ef kremið er of þykkt má bæta restinni af mjólkinni saman við.

Best er að setja kökuna saman á þeim disk sem á að bera hana fram á.

Kremið er sett á milli botna og kakan sjálf svo þakin kreminu. Skreytið með lifandi blómum og/eða ferskum berjum að vild, upplagt að vera með liti úr þema brúðkaupsins að hverju sinni.

Hægt er að fylgjast með kökubakstri og skreytingum Örnu á síðunni Kökukræsingar á Facebook en þar er að finna fjöldann allan af kökum sem Arna hefur meðal annars bakað fyrir vini og vandamenn.

Það er hægt að leika sér með lifandi blóm þegar tertan er skreytt.
Tveggja hæða terta með margvíslegum berjum og lifandi blómum.