Margar fermingarstúlkur hafa safnað hári fyrir stóra daginn og vilja leyfa hárinu að njóta sín þegar kemur að heildarmyndinni. Strákarnir koma líka en þá snýst það um hársnyrtingu og klippinguna fyrst og fremst.

„Það er ekki ein fermingargreiðsla sem er allsráðandi. Þetta er meira hvaða fatastíl og stefnur hver og ein velur sér. Stelpur eru meira upplýstar í dag og hugmyndir eru aðgengilegar á netinu, þær koma með hugmyndir og ég vinn út frá þeim. Þá er alltaf hugsað út frá andlitsfalli, líkamsbyggingu og fatavali. Við viljum alltaf fá bestu útgáfuna af okkur. Við mælum með hárskrauti sem er frekar minna en meira, blómið brúðarslör er okkar vinsælasta en allt fer eftir þemanu hjá hverri og einni.

Flestar stelpur vilja fá förðun með fermingargreiðslunni. Förðun þarf að bóka með fermingargreiðslunni. Það má ekki gleyma mömmunum, þær vilja líka fá trít. Þá er Hárbarinn fullkominn fyrir þær, gera sjálfar eða fá þjónustu,“ segir Ingibjörg og bætir við að þetta sé ein af gæðastundum mæðgnanna fyrir fermingardaginn.

Ingibjörg segir margt hafa breyst síðan hún fermdist þegar kemur að hártískunni.

„Ég fermdist árið 1987 og þá var ansi skemmtileg tíska í gangi, allt aðeins meira en minna og greiðslan í þeim stíl. Ég var með frekar stutt hár og það var blásið í vængi í hliðunum og toppurinn var eins og foss. Þrjú hvít plastblóm í hverjum væng. Það fór örugglega heill spreybrúsi í þessa greiðslu og hún þoldi 10 vindstig. Við vinkonurnar fengum allar sömu greiðsluna,“ segir Ingibjörg og hlær.

Hér valdi fermingarstúlkan sér að vera með uppsett hár og skreyta með brúðarslöri sem er einstaklega fallegt blóm.

Hárbarinn nýtur vinsælda

Ingibjörg útskrifaðist sem hárgreiðslusveinn árið 1995 og sama ár tók hún þátt í Íslandsmeistaramóti nema í hárgreiðslu og varð Íslandsmeistari. Árið 2010 útskrifaðist hún sem hárgreiðslumeistari.

„Árið 1999, aðeins 27 ára gömul, ákvað ég að stofna mína eigin hárgreiðslustofu en rakst þá á litla stofu sem var til sölu við Ingólfstorg sem ég endaði á að kaupa. Þetta voru ekki talin gáfuleg kaup á sínum tíma og þá sérstaklega vegna staðsetningarinnar þar sem allt var að flytjast úr miðbænum upp í Kringlu eða upp við Hlemm.

Ég hef náð að byggja upp stóran og traustan viðskiptavinahóp á þeim 23 árum sem ég hef unnið á litlu stofunni minni og er enn full af orku og áhuga. Ekki alls fyrir löngu fékk ég þá góðu hugmynd að opna „Blow dry bar“ þar sem ég hef orðið vör við að það vantar svo miklu meiri þjónustu við fólkið í miðbænum og þá sérstaklega konurnar til að farða sig og greiða fyrir viðburði á borð við fundi, löns með viðskiptavinum eða bara hitting með vinkonunum.

Hér er hárið tekið aftur og fléttað á hliðunum og spennt með fallegri spennu með steinum og perluskrauti.

Í miðbænum er mikið af flottum fyrirtækjum og hótelum og er vaxandi eftirspurn eftir Hárbar fyrir allar skvísurnar sem eru á leið á fundi og náðu ekki að græja sig eftir ræktina eða höfðu ekki tíma fyrr um daginn. Það líður ekki sá dagur að ég fái ekki spurningu um hvar sé hægt að droppa inn í þvott og blástur og/eða förðun, hvort sem maður notar einungis aðstöðuna á Hárbarnum eða nýtur aðstoðar sérfræðinga stofunnar,“ segir Ingibjörg og er á því að konur séu farnar að hugsa meira um hárið en áður var.

Hlý, látlaus greiðsla þar sem náttúrulegt útlit stúlkunnar fær að njóta sín. Smá liðir og eðlileg hreyfing fá að njóta sín.

Ingibjörg hefur nú opnað lúxus hársnyrtistofu, snyrtistofu, spa og bar, sem tengir hár, fegurð og félagslega upplifun saman. „Nafnið á vel við, Ungfrú Reykjavík og við erum staðsett á Hafnartorgi. Í boði er hársnyrting og snyrting en aðaláherslan er lögð á Hárbarinn sem býður upp á þvott og nokkrar útfærslur af blæstri, krullum, sléttun eða greiðslum.

Hár-spa er nýtt og hefur ekki verið í boði hér á landi, ekki frekar en Hárbarinn. Þar ætla ég að bjóða upp á lúxus nudd, maska, hárgreiningu þar sem hægt verður að greina hár og hvaða meðferð hentar hverri hárgerð fyrir sig og alla ráðgjöf og það er einmitt þessi nýjung sem mæðgur í fermingarundirbúningi eru farnar að nýta sér í meiri mæli,“ segir Ingibjörg.

Þetta viðtal birtist fyrst í Fermingarblaði Fréttablaðsins sem gefið var út föstudaginn 17. mars 2023.

Látlaus og falleg greiðsla þar sem sítt og falleg hár fermingarstúlkunnar fær að njóta sín.
Ingibjörg Sveinsdóttir, hárgreiðslumeistari á hársnyrtistofunni Ungfrú Reykjavík. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK