Brúðarförðun er ein mikilvægasta förðun ævinnar, ef ekki sú allra mikilvægasta. Á brúðardeginum eru teknar ótal myndir og brúðurin ver deginum með sínum nánustu. Allar brúðir vilja líta sem best út á þessum stóra degi og því er mikilvægt að vanda til verka.

Féll fyrir brúðarförðun

Ásthildur hefur unnið sem sjálfstætt starfandi förðunarfræðingur í fimm ár eftir að hún útskrifaðist sem alþjóðlegur förðunarfræðingur frá Make Up Designory árið 2016.

„Ég hef verið í verkefnum fyrir auglýsingar, tónlistarmyndbönd og tónleika en fljótlega eftir útskrift fór ég að sjá vöntun á sérhæfðum brúðkaupsförðunarfræðingum og fór að taka að mér brúðarfarðanir sem ég algjörlega féll fyrir. Það er dásamlegt að fá að vera partur af einum stærsta degi brúðarinnar, sjálfum brúðkaupsdeginum. Brúðir eru oft svo hamingjusamar og þakklátar og það er svo falleg orka í loftinu,“ segir Ásthildur sem er innblásin af ástríðu í starfi sínu innan um hamingjuna.

Ef brúðurin er ánægð með sig líður henni vel og er örugg með sig á brúðkaupsdaginn. MYND/@michalinaokreglicka

Brúðarmyndataka í fagurri íslenskri náttúru er vinsæl

Eftirspurnin varð strax mikil frá bæði íslenskum brúðum og erlendum, að sögn Ásthildar. En það eru ekki allir sem vita hversu margir koma til Íslands til þess að gifta sig og fara í myndatöku í fallegri náttúru Íslands sem laðar að með sínum fjölbreytileika og stórbrotinni náttúru.

„Fyrir Covid var ég með fleiri erlenda kúnna en íslenska en það er líka vegna þess að þau velja dagsetningar allan ársins hring á meðan Íslendingar kjósa frekar að gifta sig á sumrin og þá aðallega á laugardögum.“

Ásthildur er með vefsíðuna asthildurbridal.com þar sem fólk hefur meðal annars fundið hana og haft samband í kjölfarið.

„Ég er líka að vinna náið með ýmsum brúðkaups-ferðaskrifstofum, sem starfa bæði hér og erlendis. Ég er yfirleitt bókuð um ár fram í tímann.“

Á síðasta ári fékk Ásthildur viðurkenninguna Top Beauty Expert í sumarútgáfu virta breska brúðkaups-tímaritsins Weddings and Honeymoons, þar sem hún var valin ein af 20 bestu brúðarförðunarfræðingum í heimi, sem er mikil viðurkenning fyrir hana og störf hennar.

„Ég hef farðað brúðir frá ýmsum löndum en aðallega Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Kína og auðvitað Íslandi,“ segir Ásthildur.

Glæsileg greiðsla hjá Ásthildi. MYND/@lisadigiglio

Náttúruleg og tímalaus förðun í forgrunni

Hvað er mikilvægast að hafa í huga þegar kemur að brúðarförðun?

„Það er mikilvægt að vera búin að bóka förðunarfræðing tímanlega og huga að því að ekki allir förðunarfræðingar hafa reynslu í brúðarförðun.

Langflestar verðandi brúðir vilja láta sína náttúrulegu fegurð skína en ekki vera of mikið farðaðar eins og ef þær væru að fara á ball. Einnig finnst mér förðunin þurfa að vera tímalaus svo fólk geti skoðað myndaalbúmin og haft myndir á veggjunum sínum um ókomna tíð, án þess að finnast þær vera eitthvað skrítnar eða „too much“. Við vitum að tískan fer í hringi. Það getur verið mjög gagnlegt að vera búin að skoða myndir og finna innblástur af förðunum til dæmis á Pinterest.“

Ásthildur hefur haft nóg að gera undanfarin ár við að farða jafnt íslenskar og erlendar brúðir. MYND/@lisadigiglio

Mikilvægt að hugsa vel um húðina

Ásthildur leggur mikla áherslu á að verðandi brúðir hugsi sérstaklega vel um húðina og undirbúi því húðina fyrir stóra daginn.

„Það er mikilvægt að hugsa afar vel um húðina nokkrum vikum fyrir brúðkaupið. Ég mæli með að fara í andlitsbað eða einhverja góða húðmeðferð viku eða tveimur vikum fyrir stóra daginn.“

Gerir þú prufuförðun fyrir stóra daginn?

„Ég geri yfirleitt prufuförðun og hárgreiðslu viku fyrir stóra daginn en það er þó ekki nauðsynlegt.“

Fá verðandi brúðir ráðgjöf hjá þér fyrir förðunina?

„Verðandi brúðir senda mér oft myndir af því sem þær vilja fá út úr förðuninni og/eða hárgreiðslunni og biðja um ráðleggingu um það hvað myndi henta þeim.“

Þegar kemur að brúðarförðun þarf hárgreiðslan að fylgja með í undirbúningnum?

„Fljótlega eftir að ég byrjaði að farða fyrir brúðkaup fann ég mikla þörf fyrir það að brúðir vildu fá hárgreiðslu líka, þá aðallega frá erlendu brúðunum sem gifta sig úti á landi þar sem er ekki hlaupið í að finna hárgreiðslustofur nálægt. Ég fór því að sérhæfa mig í hárgreiðslum og fór á hárgreiðslunámskeið í London sem heitir Master the Art of Long Hair hjá Creative Media Skills sem gagnast mér mikið. Eftir það býð ég upp á hárgreiðslu með brúðarförðun.“

Önnur falleg og einföld greiðsla. MYND/@lisadigiglio
Ásthildur Gunnlaugsdóttir, förðunarmeistari. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR