Arna Sigurlaug Ragnarsdóttir, förðunarfræðingur og sölustjóri hjá Artica, segir undirbúning húðar fyrir brúðkaupsdaginn skipta máli.

„Grunnur að fallegri förðun felst alltaf í því hvernig húðin er undirbúin. Ég myndi ekki mæla með að prófa nýja maska viku fyrir brúðkaup heldur frekar að vera búin að finna út hvað hentar húð viðkomandi svo ekkert erti húðina síðustu dagana fyrir brúðkaupsdaginn. Rakamaski er alltaf sniðugur, bæði fyrir dömur og herrana, sem vilja fá aukinn raka og ljóma. Rakamaskar geta verið mismunandi en flestir gefa góðan raka og rakastilla húðina. Þá eru þeir oft með einhverju auka sem til dæmis róar húðina, kælir og minnkar roða.“

Arna notar ekki ýkt tískutrend við brúðkaupsförðun enda þurfi brúðarmyndir að standast tímans tönn og lifa áfram. MYND/AÐSEND
Klassísk brúðarförðun með léttri skyggingu og nude-bleikum varalit.

Hvað með andlitskrem og augnkrem?

„Það ætti alltaf að nota gott dagkrem, næturkrem og augnkrem því þau halda góðu jafnvægi á húðinni. Hvernig sem húðtýpan er – þurr, blönduð eða olíukennd – þá er alltaf gott að nota rakakrem sem hentar húðtýpu hvers og eins. Það skiptir máli fyrir góða förðun.“

Arna Sigurlaug mælir með að tilvonandi brúðir fari í prufuförðun fyrir stóra daginn.

„Ég myndi segja að það væri nauðsynlegt og það er sniðugt að koma um mánuði fyrr. Ég bið tilvonandi brúði alltaf um að koma með hugmyndir að förðun sem hún vill fá; til dæmis myndir af Pinterest. Síðan finnum við saman út hvað við viljum gera og veljum farða og liti eftir hvað hverri og einni hentar.“

Ljómandi húð og brúntóna augnförðun með dökkri skyggingu.
Brúntóna jarðlitir og mildir litatónar eru oft notaðir við brúðarförðun

Svo húðin ljómi

Svo rennur brúðkaupsdagurinn upp og segir Arna Sigurlaug skipta máli að förðunin haldist allan daginn og að sjálfsögðu að brúðinni líði vel með förðunina.

„Ég hitti brúðina almennt um mánuði fyrir brúðkaupsdaginn og þá förum við yfir öll skrefin og ákveðum hvaða vörur við ætlum að nota. Oftast er brúðurin þá búin að kaupa varalitakombó sem við höfum hjálpast að við að finna. Ég mæli til dæmis með MAC; þeir hafa svo mikið úrval af varalitum og flestir ættu að geta fundið rétta litinn þar. Og ef ekki varalit þá gloss,“ segir Arna Sigurlaug.

Þegar kemur að húðinni er alltaf byrjað á að grunna húðina með góðum raka og síðan primer sem hjálpar allri förðun að haldast vel yfir allan daginn.

„Ég nota aðallega primera frá Smashbox þar sem þeir eru með góða primera fyrir allar húðtýpur. Þeir hjálpa farðanum að haldast betur á yfir daginn, slétta áferð húðar, minnka opnar húðholur og áferðin á farðanum verður fallegri. Hvað farða – meik – varðar, er það frekar mismunandi og fer algjörlega eftir týpunum, hvort þær vilji alveg þekjandi farða eða aðeins léttari. Aðalatriðið er að húðin ljómi.“

Arna mælir alltaf með vatnsheldum maskara á brúðkaupsdaginn, enda geti stundum fallið tár.

Arna Sigurlaug segir misjafnt hvað brúðir vilja, ekki síst þegar kemur að augnförðun.

„Stór hluti velur brúntóna jarðliti. Litir eru líka fallegir og poppa upp augnförðunina en þetta eru þá oftast mildir litir sem við notum í brúðarförðun. Síðan nota ég smá liner, hvort sem það er til að ramma aðeins inn augnförðunina eða liner sem má vera aðeins áberandi. Oft fer þetta eftir tískutrendunum sem eru í gangi á hverjum tíma en ég nota ekki ýkt tískutrend, vegna þess að við viljum að myndirnar lifi áfram. Ég mæli líka alltaf með vatnsheldum maskara á stóra deginum; það geta alltaf komið smátár á svona degi. Einnig nota ég oftast stök augnhár til að gera aðeins meira úr þeim sem fyrir eru.“

Arna segir að það séu mikil „trend“ þegar kemur að augabrúnum; þær taki sínar sveiflur. „Núna er mikið verið að greiða þær upp; smá „soap brow“ þótt við pössum að gera ekki of mikið heldur er reynt að hafa þær sem náttúrulegastar.“

Þegar förðunin er tilbúin segir Arna Sigurlaug að lokaskrefið hjá sér sé alltaf að setja „setting spray“ yfir andlit brúðarinnar.