Óprúttnir aðilar brutust inn í bifreið Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrúar Íslands, í Lundúnum í gærkvöldi. Dorrit greinir sjálf frá þessu á Instagram.
Svo virðist sem þjófarnir brutu rúðu bílsins bílstjóramegin og látið greipar sópa um bifreið hennar. Dorrit virðist þó taka þessu með ró, samkvæmt færslunni þar sem hún segir að þjófarnir hafa skilið eftir það verðmætasta í bílnum.
„Glæpir í Lundúnum eru stjórnlausir,“ skrifar Dorrit sem reynir síðan að merkja Mayfair Hótelið í London. „Verðmætasti hluturinn, íslenska vatnið, var þó skilið eftir,“ skrifar hún og birtir mynd af framsætum bílsins sem eru þakin glerbrotum.

Þjófarnir voru ekki hrifnir af Icelandic Glacier vatnsflöskunni.
Ljósmynd/Instagram skjáskot