Ekki getur sumarsólin skinið að eilífu og þá er tilvalið að leita skjóls frá haustlægðinni innan veggja leikhússins, leikárið bíður eftir áhorfendum með opinn faðminn.

Eins og áður byrjar leikárið á Act Alone fyrir vestan þar sem Elfar Logi Hannesson býður upp á ókeypis einleiki af öllum gerðum. Á öðrum degi hátíðarinnar, þann 9. ágúst, bárust þær sorgarfréttir að leikskáldið og þýðandinn Birgir Sigurðsson væri fallinn frá. Vonandi fá leikverk hans framhaldslíf á komandi árum, íslenska nýklassíkin gleymist alltof oft.

Áður en haldið er inn í leikhússalinn eru leikhúsaðdáendur hvattir til að fylgjast með Bíói Paradís sem sýnir reglulega upptökur af breskum leiksýningum sem og Útvarpsleikhúsinu, en útvarpsútgáfa af SOL eftir Tryggva Gunnarsson og Hilmi Jensson fékk á dögunum tilnefningu til hinna virtu Prix Europa verðlauna.

Yngstu leikhúsgestirnir

Við hæfi er að byrja að skoða hvað er í boði fyrir yngstu leikhúsgestina. Tjarnarbíó kemur sterkt til leiks með fimm barnasýningar, sjálfstæða senan er að gera góða hluti þar. Þá ber sérstaklega að nefna Leikhópinn Lottu sem þeyttist um landið í sumar með Litlu hafmeyjuna og færir sig síðan inn fyrir dyr við Tjörnina með Hans klaufa. Í Þjóðleikhúsinu er dagskráin einnig fjölbreytt. Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag eftir Ævar Þór Benediktsson lofar framförum eftir gallaða frumraun og klassíski Kardemommubærinn er settur í hendurnar á reynsluboltanum Ágústu Skúladóttur. Einnig stendur húsið fyrir þremur sýningum fyrir börn og unglinga sem ferðast um landið. Gosi, einnig í leikstjórn Ágústu, kætir börnin í Borgarleikhúsinu sem greinilega treystir á áframhaldandi sýningar á Matthildi fyrripart leikársins. Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist í leikstjórn Agnesar Wild, sem leikstýrir nokkrum fjölda barnasýninga í ár, verður frumsýnt á Akureyri.

Unga fólkið á Akureyri og áherslubreytingar við Tjörnina

Síðan Marta Nordal tók við stjórnartaumunum hjá Leikfélagi Akureyrar hefur grasrótinni verið sinnt af miklum móð og ný kynslóð fengið tækifæri til að rækta hæfileika sína. Leikfélag unga fólksins er nýtt atvinnuleikhús fyrir unglinga sem sýna FML (fokk mæ læf) um þessar mundir. Krúnudjásn norðlenska leikársins er margverðlaunaði ameríski rokksöngleikurinn Vorið vaknar eftir Duncan Sheik og Steven Stater, byggður á tímamótaverki Franks Wedekind sem Marta leikstýrir. Cabaret fékk góðar viðtökur í fyrra, vonandi þjónar uppreisnarandinn Leikfélagi Akureyrar áfram.

Marta Nordal leikhússtjóri hefur gefið nýrri kynslóð tækifæri til að rækta hæfileika sína. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Barnasýningar hafa kannski aldrei verið fleiri í Tjarnarbíói en sjaldan hafa hefðbundnar leiksýningar verið færri. Auðvitað framleiðir húsið ekki sýningar heldur endurspeglar listrænar áherslur sjálfstæðra leikhópa. Er þetta merki um að sjálfstæðir hópar séu frekar að leita í önnur hús eða séu að taka sína list í róttækari áttir? Leiklistarhátíðin Lókal verður með öðru sniði en oft áður, í stað þess að flytja fullbúin verk fær sviðslistafólk tækifæri til að taka þátt í vinnustofu og sýna verkefni í vinnslu. Reykjavík Dance Festival, sem er líkt og Tjarnarbíó gríðarlega mikilvæg danssenunni, verður haldin 18. til 22. nóvember.

Stórtíðindi í stóru leikhúsunum

Þjóðleikhúsið fagnar 70 ára starfsafmæli á næsta ári og leitar aftur í faðm skáldsagnanna til að fá innblástur, að auki bætast við tvö leikrit byggð á kvikmyndum. Aðlaganirnar trompa frumsamin leikverk í húsinu þetta árið. Þar ber fyrst að nefna Atómstöðina – endurlit eftir Halldór Laxness í leikgerð Halldórs Laxness Halldórssonar í samvinnu við Unu Þorleifsdóttur sem einnig leikstýrir og Meistarann og Margarítu eftir Búlgakov, Hilmar Jónsson leikstýrir. Engillinn, byggður á verkum eftir Þorvald Þorsteinsson, og Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) eftir Auði Övu Ólafsdóttur, í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar, eru sérstakt tilhlökkunarefni. Samstarfssýningin Skarfur eftir Kolbein Arnbjörnsson og Brúðumeistarinn með Bernd Ogrodnik í fararbroddi hafa alla burði til að vera eftirminnilegar.

Brynhildur Guðjónsdóttir tókst á við Shakespeare og leikstýrir nú Vanja frænda eftir Tsjékhov. Fréttablaðið/Eyþór

Ólafur Egill leikstýrir einnig vorsöngleik Borgarleikhússins sem er glymskrattaverk byggt á lögum Bubba Morthens. Biðin eftir nýja íslenska söngleiknum virðist ætla að verða löng. Miðað við hágæði frumraunar Brynhildar Guðjónsdóttur í leikstjórahlutverkinu með Ríkharði III, sem verður blessunarlega áfram í sýningum, þá er ástæða til að hlakka til Vanja frænda eftir Anton Tsjékhov, sem verður frumsýnt í Borgarleikhúsinu á nýju ári. Tvö ný leikrit spretta upp innanhúss, Stórskáldið eftir Björn Leó Brynjarsson og Helgi Þór rofnar eftir Tyrfing Tyrfingsson, og önnur tvö í samstarfi við sjálfstæða leikhópa. Innanhússvinnan er greinilega að skila sér og forvitnilegt verður að sjá hvað sprettur upp úr Umbúðalausu, nýju framtaki þar sem ungt listafólk fær tækifæri til að prufa sig áfram. Einnig er ánægjulegt að sjá nýklassík beggja vegna Atlantshafsins í bland við nýju íslensku leikritin. Eitur eftir Lot Vakemans í leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur skorar hátt á eftirvæntingarskalanum.

Dramatík utan sviðs

Staða þjóðleikhússtjóra er laus um þessar mundir og samkeppnin hefur sjaldan verið meiri. Ari Matthíasson sækist eftir að halda sinni stöðu en Kolbrún Halldórsdóttir, Kristín Eysteinsdóttir og Magnús Geir Þórðarson eru öll sterkir kandidatar. Ný lög um sviðslistir eru enn þá í vinnslu en lítið hefur heyrst af þeirri vinnu eftir að fyrra uppkastið mætti mikilli mótstöðu fagfólks. Biðin eftir kynningarmiðstöð fyrir sviðslistir virðist engan enda ætla að taka. Að auki er löngu kominn tími til að endurskoða listamannalaun og styrkjaumhverfi sviðslista. Leikskáld eru enn þá fjársvelt og fjárveitingar eiga heldur ekki að einskorðast við einstaka sýningar heldur að styrkja sviðslistahópa og höfunda til lengri tíma, þannig fá bæði einstaklingar og hópar pláss til að dafna.

Fram undan eru spennandi mánuðir og úr ýmsu að velja. Áhorfendur eru hvattir til að mæta grimmt í leikhúsin, taka áhættu í vali og styðja íslenska leikritun.

Gleðilegt nýtt leikár!