Ís­lensku saka­mála­þættirnir Brot eða Val­halla Mur­ders hafa slegið í gegn undan­farnar vikur í Bret­landi og þá er þátta­röðin álista BBC yfir bestu þátta­raðir ársins sem sýndar hafa verið á miðlinum.

Óttar M. Norð­fjörð, aðal­hand­rits­höfundur þáttanna, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að við­tökurnar í Bret­landi hafi farið fram úr sínum björtustu vonum. Þær hafi komið sér skemmti­lega á ó­vart. Þættirnir voru líkt og al­þjóð man eftir sýndir í Ríkis­út­varpinu í upp­hafi árs en fengu blendnar við­tökur hjá gagn­rýndanda Frétta­blaðsins.

Óttar segir að þættirnir hafi verið sýndir tveir saman undan­farin laugar­dags­kvöld á BBC4. „Mér sýnist að þættirnir í augna­blikinu vera með meira á­horf en Ó­færð í Bret­landi,“ segir Óttar. Þar er um að ræða nokkuð magnað af­rek þar sem Ó­færð vöktu mikla at­hygli á sínum tíma.

Við­tökurnar hafi komið skemmti­lega á ó­vart en upp­safnað á­horf síðustu tvö laugar­dags­kvöld voru um milljón á­horf­endur per kvöld. „Svo var alveg fullt af fólki að tvíta,“ segir kampa­kátur Óttar. „Þetta var bara eins og Euro­vision,“ segir hann og segir breska á­horf­endur mikið grínast með Ís­lendinga. „Eru Ís­lendingar ekki með ljós? spurði einn. Svo var Björn Thors kallaður „Mr Norway og Mr. Turt­leneck. Þannig þetta var mikil stemning.“

Ó­víst með fram­haldið

Óttar segir við­tökurnar og þá stað­reynd að þátta­röðin sé á lista meðal bestu þátta ársins hjá BBC, súrrealíska. „Og þarna eru fullt af seríum sem ég horfði á árinu og svo er Val­halla Mur­ders þarna bara líka,“ segir léttur Óttar.

Hann segir ljóst að sýning þáttanna í Bret­landi sé eins­konar endir á rúm­lega fjögurra ára ævin­týri. „Og nú er þetta eigin­lega bara búið ef svo má segja,“ segir Óttar sem segir ekki víst hvort fram­hald verði gert.

„Það er enn ó­víst. En við vitum hvernig hún myndi líta út og höldum í vonina að það gæti gerst,“ segir Óttar.