Ef ég er að semja kvikmyndamúsík þarf ég að treysta á söguna sem mér er gefin, og á smekk og fagurfræði listrænna stjórnenda sem ég er að vinna með, eins og ritstjóra handrita,“ segir Pétur Þór Benediktsson tónskáld, spurður hvaðan hann fái innblástur í sköpunarverk sín. „Auðvitað hef ég áhrif líka að einhverju leyti,“ bætir hann við. „En þó ég sé einyrki og geri öll mín myrkraverk aleinn, þá byggist hugmyndavinnan á samstarfi.“
Tilefni þessara orða er sú athygli sem tónlist Péturs í sjónvarpsseríunni Broti hefur fengið, fyrir listrænt gildi sitt. „Verkefni eins og Brot er fyrir mig eins og flugmóðurskip, það er svo stórt. Mikil músík í hverjum þætti og hún þarf að falla að tóni verksins sem búið er að leggja upp með,“ segir Pétur. „Þetta var skemmtilegt viðfangsefni en það er líka rosa gott að það er búið. Það var krefjandi í svo langan tíma og mér fannst erfitt að leggja það á fjölskylduna.“
Lauk við tónlistina í janúar
Framleiðendur Brots eru þeir sömu og gerðu seríuna Fanga, sem Pétur samdi tónlist við með Ragnari Bragasyni. Það segir hann ástæðu þess að honum var boðið á skútuna núna. „Flestir sem unnu að Broti eru þeir sömu og komu að gerð Fanga, sami hljóðhönnuður og búningahönnuður, sömu klipparar og sminkur. Ég fór á fund með leikstjóranum, Þórði Pálssyni, sem endaði þannig að við ákváðum að vinna saman og sjáum ekki eftir því,“ segir Pétur sem kveðst hafa byrjað á að gera nokkrar skissur og vísbendingar og síðan tekið til við að semja í sumar. „Ég var dálítið lengi að þessu. Tónlistin kláraðist ekki fyrr en eftir frumsýningu, bara núna í janúar.“
Undir lok ferlisins viðurkennir Pétur að hafa unnið mestallan sólarhringinn en tekur fram að hann sé ekkert að vorkenna sér. „Þetta er bara það sem fólk gerir í þessu starfi. Ég valdi mér reyndar ekki kvikmyndatónlist beinlínis, hún datt svolítið til mín í gegnum vináttu mína við Ragnar Bragason, en ég valdi að gera músík og nýt þess. Svo fer það eftir því hvað ég fæ mikið af svona verkefnum hversu lengi ég get gert þau einn en til að réttlæta ráðningu starfskrafts þyrfti ég að hafa verkefni í hendi og ég held ég sé ekkert að fara þangað – sé til – tek einn dag í einu.“
Aldrei fullnuma
Nú er Pétur að vinna í Þjóðleikhúsinu í verkinu Brúðumeistarinn eftir Bernd Ogrodnik. „Það er heillandi verk,“ segir hann. „Dálítið byggt á sögu Ogrodnik og lífi og skiptist milli þess að vera einleikur hans og brúðuheimur. Ogrodnik er sennilega einn besti brúðugerðarmaður í heiminum og þetta er hans leið til að túlka ævisögu – það þarf hugrekki og líka þroska til að gera það vel. Bergur Þór leikstýrir og Eva Berger gerir búninga og leikmynd.“
Pétur semur tónlistina við Brúðumeistarann og segir það viðfangsefni ansi mikið ólíkt Broti. „Það er heiður fyrir mig að fá að taka þátt í þessu verki í samstarfi við listræna stjórnendur. Þegar maður er að vinna í svona sögum, hvort sem það er í leikhúsi, kvikmynd eða sjónvarpsþáttum, þá er maður alltaf í þjónustuhlutverki. Þó að það feli í sér að koma með listræn tilboð þá er ég aldrei með endanlegt ákvörðunarvald, það er leikstjóri eða framleiðandi sem á lokaorðin. Tónlistin er samt stór þáttur í lokaniðurstöðunni þannig að maður verður að finna hvað fellur manni sjálfum í geð. Stundum finnst mér ekki eiga að vera nein tónlist í atriðum, þá reyni ég að sýna fram á það. En maður verður aldrei fullnuma í þessu.“
Gjöfult samstarf
Samband Péturs við leikstjóra og framleiðendur segir hann hafa verið gjöfult í gegnum tíðina. „Af hverjum og einum lærir maður eitthvað og tekur með sér inn í næstu verkefni. Stundum lánast manni að setja einhverja stóra sögn í verk en sumt er svo óáþreifanlegt að fólk skilur ekki af hverju því líður eins og því líður þegar það er að horfa. Samspil ljóss, lita og hljóðmyndar getur haft gríðarleg áhrif á hvernig fólk upplifir hluti. Þá meina ég líka þau hljóð sem tilheyra verkinu – fyrir utan tónlistina – það þarf líka rými fyrir þau. Þetta er línudans. Ég er mjög vakandi fyrir hljóðmyndinni þegar ég horfi á bíómyndir en höfundur reynir alltaf að láta fólk ekki finna mikið fyrir henni.“
Aðalhugmyndirnar að kvikmynda- og leikhússtónlist verða til í höfðinu, að sögn Péturs. „Ég skrifa út nótur beint og sem líka á píanó eða önnur hljóðfæri, útfærslan er svo gerð á ýmsan hátt. Núna er ég að vinna í hálfgerðu barokkverki og af því ég þekki þann stíl get ég heyrt tónlistina fyrir mér í höfðinu en svo tekur tíma að láta hana verða að veruleika.“
Síðustu mánuðir hafa verið annasamir hjá Pétri en oft segir hann verkefni sín ýmist í ökkla eða eyru, eins og hjá öðrum sjálfstæðum listamönnum. „Maður fær kannski hringingu og er beðinn að koma að spila akkúrat þegar maður er í stóru kvikmynda- eða leikhúsverkefni. Ég fór samt nýlega í litla tónleikaferð um Danmörku með Helga Rafni Jónssyni og konu hans Tínu Dickow og tók bara Brot með mér. Þegar mikið er í gangi er maður að ausa bátinn eftir fremsta megni, svo þegar alger þurrkur er reynir maður að komast aftur á flot.“