Þegar fólk klæðist áberandi tónlistar- og hljómsveitabolum líta margir svo á að það sé á einhvern hátt einlæg yfirlýsing um þekkingu og áhugasvið þess sem hlut á að máli enda hafi mörg vináttan sprottið úr ámóta jarðvegi í gegnum tíðina.

Breyttir tímar

Þannig geta því fylgt gríðarleg vonbrigði þegar eldheitir aðdáendur fyllast eftirvæntingu yfir því að skapa hugsanlega tengingu við aðra manneskju um það sem skiptir þá hvað mestu máli til þess eins að gera þá dapurlegu uppgötvun að sá sem grunlaus klæðist bolnum veit raunar lítið sem ekkert um téð listafólk.

Þessi viðbrögð og tilfinningar geta verið skiljanleg enda eru margir afar ástríðufullir í garð ákveðinna tónlistarmanna og hljómsveita.

Áður fyrr, þegar fólk hlustaði á tónlist af plötum og geisladiskum var hægt að liggja tímunum saman yfir listinni og upplýsingunum sem fylgdu. Aðdáendur lærðu þannig gjarnan alla texta og nöfn þeirra sem komu að plötunni eða geisladisknum utan að ásamt því að drekka í sig hönnun plötuumslagsins.

Gítarleikarinn Gary Holt í bolnum umdeilda.

Í dag ýtir fólk einfaldlega á takka og hlustar á lag. Því fylgja yfirleitt engar nánari upplýsingar, hvorki um texta, plötuumslag né aðra list sem mögulega prýðir tilheyrandi verk en það liggur oftast mikil vinna að baki bæði innihaldi og útliti þess.

Dauðans alvara

Nýlegt dæmi um erjur af þessu tagi er frá árinu 2014 en þá sló í brýnu á milli óvæntra aðila þegar Kend­all Jenner, ein Kardashian-systra (þrátt fyrir að vera ekki tæknilega séð Kardashian), klæddist Slayer-bol. Gary Wayne Holt, gítarleikari Exodus sem gekk til liðs við Slayer árið 2011, brást heldur illa við og svaraði með því að klæðast og svo selja boli með áletruninni „Kill the Kardashians“.

Haft var eftir Holt að vinur hans að nafni Jack hefði gert bolinn vegna þess að hann vissi af „djúpu, bitru, svörtu hatri“ Holts á fjölskyldunni. Þá sagði hann einnig um málið: „Ég öfunda þau ekki fyrir auðæfi, ég bara fokking hata fólk sem verður að stórstjörnum fyrir að gera ekki neitt.“ Kendall svaraði svo fyrir sig með því að klæðast aftur Slayer-bol árið 2016.

En þrátt fyrir að viðbrögð Holts hafi mögulega verið full dramatísk þá er engu að síður nánast óhætt að fullyrða að Jenner sé ekki aðdáandi sveitarinnar, enda sagði hún á Twitter árið 2013: „Ég skil ekki fólk sem hlustar á þungarokk.“