Elsti bróðir söngkonunnar Britney Spears, Bryan Spears, ræddi um aðstæður systur sinnar í hlaðvarpsþættinum As Not Seen on TV í gær. Bryan lýsti því yfir að systir hans hafi alltaf viljað losnað undan samningnum sem var settur í gildi þegar hún var svipt sjálfræði, vegna þess að hann takmarki frelsi hennar.
Árið 2008 var Britney svipt sjálfræði og hafa Jamie Spears, faðir Britney, og lögfræðingurinn Andrew Wallet verið lögráðamenn hennar síðan.
Pirrandi líferni
„Það er mjög pirrandi að þurfa að lúta því. Hvort sem einhver leggi það á þig í góðu eða ekki, að einhver sé alltaf að segja þér hvað þú átt að gera hlýtur að vera pirrandi,“ sagði Bryan.
Hann bætti við að hann vissi að fólki grunaði að hún væri í haldi gegn vilja sínum. Hreyfingin Frelsum Britney hefur farið vaxandi á síðustu vikum og hafa aðdáendur söngkonunnar reynt að vekja athygli á því að Britney væri fangi föður síns og lögmanns. Hreyfingin hefur meðal annars biðlað til Hvíta hússins að veita henni sjálfræði á ný og hafa nú þegar yfir 130 þúsund manns skrifað undir áskorunina.

Frábært fyrir fjölskylduna
Að mati Bryan er sjálfræðissviptingin hins vegar af hinu góða. „Þetta hefur verið frábært fyrir fjölskylduna,“ sagði Bryan um málið.
„Við komum öll saman og allir voru sammála þessu.“ Einhverjir hafi þrætt um réttu leiðina. „En á endanum held ég að við höfum valið rétta kostinn.“
Faðirinn fært fórnir
Bryan sagði föður sinn hafa fært mikla fórn fyrir að taka að sér hlutverk forráðamanns. „Hann gerir almennt það besta sem hann getur miðað við stöðuna sem hann er í.“
Þá sagði hann að ef Britney fengi sjálfræði á ný myndi það hafa alvarleg áhrif á líf hennar. „Hún hefur verið umkring teymi af fólki síðan hún var 15 ára.“ Hún hafi því aldrei þurft að bóka borð, keyra eða framkvæma hversdagslega hluti. „Það yrði stór breyting.“