Stikla úr væntanlegri kvikmynd um broddgöltinn Sonic olli miklum usla fyrr á árinu þar sem aðdáendur lýstu yfir miklum vonbrigðum með birtingarmynd tölvuleikjapersónunnar. Þóttu mannlegir eiginleikar broddgaltarins bláa gefa fólki óþægilega tilfinningu og að framleiðendur myndarinnar hafi misst algjörlega marks við að fanga anda tölvuleikjanna. Viðbrögðin voru svo neikvæð að ákveðið var að fresta myndinni þar til að endurbætur hefðu verið gerðar í samræmi við gagnrýni.

Í dag var gefin út ný stikla þar sem sjá má Sonic eftir fegrunaraðgerðirnar og hafa viðbrögð aðdáenda í kjölfarið verið mjög jákvæð. Að ofan má sjá stiklurnar tvær bornar saman - þeirri nýju að ofan og þeirri gömlu að neðan.

Myndin er væntanleg árið 2020 og skartar meðal annars James Marsden og Jim Carrey í aðalhlutverkum, en fer sá síðarnefndi með hlutverk hins illa Dr. Robotnik.