Inga Rut greindist með brjóstakrabbamein ári eftir hefðbundið eftirlit. Hún segist í dag þakklát fyrir krabbann, hann hafi ýtt henni út fyrir þægindarammann í verkefni sem hún hafði aldrei gefið sér tíma fyrir áður. Inga Rut er jákvæð og full af þakklæti, bíður eftir að komast aftur á deit með gönguskónum.

Inga Rut Karlsdóttir er á meðal viðmælenda í blaði Ljóssins, endurhæfing fyrir krabbameinsgreinda sem kom út í gær.

„Ég greindist um miðjan nóvember 2019 með brjóstakrabbamein sem var komið út í eitla og þá fór allt á hvolf. Ég fór í hefðbundið eftirlit árinu áður, en þarna fann ég sjálf að það var eitthvað skrýtið undir holhöndinni, sem kom í ljós að var eitill,“ segir Inga Rut í viðtalinu en þá hafði krabbameinið náð að dreifa sér í brjóst hennar og eitla. Hún hóf eftir það lyfjameðferð sem hún var lengi að ná sér af.

Inga Rut fór í brjóstnám á öðru brjósti.

„Ég vildi náttúrlega losna við hitt líka en læknarnir færðu nú rök fyrir að það væri óþarfi og of mikið. Síðan tók við lyfjameðferð og geislameðferð. Brjóstnámið var það minnsta af þessu. Svo er ég í viðbótarmeðferð sem ég verð í næstu árin, það er talað um að annað lyfið sé jafnvel út ævina og hitt í tíu ár, ég er bæði á töflum og í sprautum á þriggja mánaða fresti. Það eru alls konar aukaverkanir en ég reyni alltaf að hugsa rosalega fallega til þessarar töflu og þakka henni fyrir að vera til því að hún breytti heilmiklu fyrir mig,“ segir Inga Rut í viðtalinu.

Þrátt fyrir að það hafi ekki verið langt frá síðasta hefðbundna eftirliti ákvað hún að fara í skoðun þegar hún fann hnúðinn.

„Ég var alveg viss um að þetta væri eitthvað. Pabbi hafði greinst tveimur árum áður þannig að ég var búin að fylgjast með hans meðferð og hitta lækninn hans, Ásgerði Sverrisdóttur, og ég var svo heppin að vera undir hennar leiðsögn í mínu ferli,“ segir Inga Rut.

Inga Rut segir greininguna hafa verið erfiða fyrir alla fjölskylduna.

„Auðvitað var þetta mikið sjokk, krakkarnir mínir voru búnir að fylgjast með afa sinum og það urðu allir hræddir. Svo hjálpaði ekki til að stuttu eftir að ég fékk greininguna þá var COVID og öll hræðslan í kringum það, ég ónæmisbæld og ég þorði ekki út í búð að versla í matinn. Auðvitað var þetta heilmikið álag en þá kom líka Ljósið og tók utan um börnin mín,” segir Inga Rut, sem á fjögur börn með eiginmanni sínum, Sigurði Arnarsyni sóknarpresti Kópavogskirkju.

Viðtalið við Ingu Rut má lesa í heild sinni í Ljósablaðinu 2022.