Fólk

Brjálæðið heldur bara áfram

Fiðluleikarinn Hulda Jónsdóttir les eina bók á viku og er ólæknandi nammigrís. Hún kemur fram á tónleikaröðinni Sígildir sunnudagar um helgina í Hörpu ásamt Jane Ade Sutarjo píanóleikara.

„Ég ólst að mestu leyti upp við klassík og það er og verður minn heimavöllur en ég er alæta á alla tónlist sem hefur eitthvað að segja,“ segir Hulda Jónsdóttir fiðluleikari. MYND/NATALIE DERYN JOHNSSON

Hulda Jónsdóttir fiðluleikari og Jane Ade Sutarjo píanóleikari koma fram á tónleikaröðinni Sígildum sunnudögum í Hörpu um helgina. Þær kynntust við nám í Listaháskóla Íslands (LHÍ) fyrir áratug og hafa leikið reglulega saman frá árinu 2011. Að þessu sinni flytja þær tvær sónötur eftir W.A. Mozart, Duo Concertant eftir Igor Stravinsky og Sónötu eftir Sergei Prokofiev.

Hulda segir, aðspurð hvers vegna þessi verk hafi verið valin, að þær hafi rætt það fyrir um ári hversu leiðinlegt það væri hvað píanó- og fiðlusónöturnar eftir Mozart heyrðust sjaldan á tónleikum nú til dags. „Í kjölfarið fórum við að hugsa hvaða verk myndu passa vel við Mozart en samt sem áður veita ákveðna andstæðu. Þá lá nýklassík frá fyrri hluta 20. aldar beint við þar sem þar er um að ræða ákveðinn skyldleika hvað uppbyggingu og hugmyndafræði varðar. Tónmálið er að mörgu leyti djarfara og þróaðra í rússnesku verkunum enda nánast 200 ár milli þess sem þau voru skrifuð og mikið vatn runnið til sjávar í heims- og tónlistarsögunni.“

Byrjaði ung

Hulda ólst upp í Hveragerði og um skamman tíma í Bandaríkjunum. Hún byrjaði að læra á fiðlu fjögurra ára gömul og eftir diplómapróf frá LHÍ hélt hún til New York þar sem hún fékk inngöngu í hinn virta Juilliard-listaháskóla. „Þar var ég í sex ár og kláraði Master of Music vorið 2015. Þá ákvað ég að það væri kominn tími til að skipta um umhverfi og flutti til Þýskalands og hef búið þar síðan. Raunar er ég mikið á ferðinni og held að ég hafi ekki náð því að vera lengur en þrjár vikur á sama stað í meira en tvö ár.“

Hulda Jónsdóttir píanóleikari Úr einkasafni

Hulda segir Jane, meðleikara sinn, vera mikla ofurkonu en hún spilar bæði á píanó og fiðlu. „Jane flutti til Íslands frá Indónesíu til þess að læra á fiðlu hjá kennaranum mínum, Guðnýju Guðmundsdóttur, og lærði reiprennandi íslensku hraðar en nokkur sem ég hef kynnst. Hún ákvað síðar að leggja meiri áherslu á píanóið en skipti ekki fyrr en hún var búin að ná þeim áfanga að verða fyrsti og eini nemandi LHÍ til að ljúka lokaprófi á tvö hljóðfæri.“

Miklar annir fram undan

Það er sannarlega engin lognmolla kringum Huldu. „Brjálæðið heldur bara áfram, sýnist mér. Ég kem aftur til Íslands tvisvar í vor til að spila á tónleikum og tek þátt í verkefnum í Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Rússlandi og Skotlandi með alls konar skemmtilegu fólki. Þar má m.a. nefna gæluverkefni mitt, strengjakvintett sem heitir Wooden Elephant og inniheldur nokkra af bestu vinum mínum, en við spilum umritanir á heilum plötum eftir listamenn úr öðrum stefnum en klassík. Næst á dagskrá er ný umritun á plötunni Kid A eftir Radiohead.“

Hvað er best að fá í morgunmat um helgar? Ég er voðalega hrifin af öllu með avókadó og eggjum, nýbökuðum croissants, ferskum appelsínu- eða greipaldinsafa og nóg af kaffi. Helst cappuccino.

Ef þú vilt gera vel við þig í mat og drykk um helgi, hvað verður fyrir valinu? Það fer eftir því hvaða stuði ég er fyrir en mér finnst nánast allur matur góður. Ef mig langar til þess að vera í hollari kantinum er ég mjög hrifin ef alls konar grænum söfum og acai- og smoothie-skálum. En eitthvað einfalt eins og góð steik eða fiskur með fersku og vel elduðu grænmeti og glasi af góðu víni klikkar aldrei.

Sígildir sunnudagar eru regnhlífarhugtak yfir klassískar tónleikaraðir og staka viðburði í Hörpu sem haldnir eru á sunnudögum í vetur.

Ertu nammigrís? Já, ólæknandi. Ég uppgötvaði Nóa kropp með pipardufti síðast þegar ég var heima og það endaði með því að bróðir minn þurfti nánast að fela það fyrir mér.

Hvernig er draumahelgin? Ef ég hef nokkra daga í fríi eru eftirfarandi hlutir mikilvægir: að sofa nóg, borða vel, tala við þá sem mér þykir vænt um og að gera eitthvað sem ég geri ekki dagsdaglega, hvort sem það er að fara á safn eða sýningu sem ég hef ekki farið á áður, fara í langan göngutúr eða fjallgöngu, horfa á nýjan þátt eða mynd, lesa góða bók, elda flóknari kvöldmat en venjulega og vera eins lítið í símum og tölvum og mögulegt er. Ef um draumahelgi væri að ræða myndu þessir hlutir eiga sér stað á einhverjum skemmtilegum stað, annaðhvort í Frakklandi eða á Spáni, og að sjálfsögðu væri veðrið gott.

Hvernig tónlist hlustar þú á? Ég ólst að mestu leyti upp við klassík og það er og verður minn heimavöllur en ég er alæta á alla tónlist sem hefur eitthvað að segja. Þó er ég oft komin með nóg af tónlist eftir að vera búin að grúska í henni allan daginn og finnst þá góð tilbreyting að hlusta á ekkert. Annars finnst mér oft gott mótvægi að hlusta á eitthvað annað en klassík.

Hvaða áhugamál áttu utan tónlistar? Ég hef skokkað nokkuð reglulega í átta ár og reyni alltaf að gefa mér tíma til þess þar sem það tæmir og róar hugann og heldur líkamanum í formi. Hitt áhugamál mitt er lestur en ég hef alltaf verið frekar mikill bókaormur. Á afmælinu mínu í fyrra setti ég mér lestraráskorun um að lesa eina bók á viku næsta árið. Það hefur verið frábært en stundum líka erfitt að standa við þá áskorun. Þá kemur sér vel að eiga stundum inni mikið hangs í lestum og flugvélum til þess að koma sér aftur á strik.

Ertu spennt fyrir HM í fótbolta í sumar? Í allri hreinskilni þá skil ég hvorki upp né niður í fótbolta en finnst mjög spennandi að Ísland sé að taka þátt og mun örugglega horfa á þá leiki sem við spilum. Ég horfi alltaf þegar Ísland keppir á stórmótum í öllum íþróttum og þá veldur þjóðarstoltið því á einhvern undarlegan hátt að ég skil betur það sem fram fer. Þá verð ég stressuð fyrir hönd íslensku keppendanna og fer að grenja, hvort sem við töpum eða vinnum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fólk

Byrjaði að rappa í Kópavogi

Fólk

Litlu upp­lifanirnar gefi lífinu mesta gildið

Fólk

Björk undir­býr mara­þon­hlaup: „Allt er gott í hófi“

Auglýsing

Nýjast

Jón Viðar dásamar Ófærð: „Hvað vill fólk meira?“

Fá hjón verja jafn miklum tíma saman

Hildur Yeoman í Hong Kong

„Ég er mikið kvikindi“

Fékk stað­gengil í nýjustu seríu Game of Thrones

Grænkerar í sjálfkeyrandi bílum

Auglýsing