Barnabókin Fagurt galaði fuglinn sá kom út í október og að sögn Kristjáns Freys Halldórssonar, forleggjara hjá bókaútgáfunni Sögum, hefur eftirvæntingin eftir henni verið mikil frá upphafi.

Þar vegur sjálfsagt þungt hljóðspjaldið sem fylgir henni og spilar söng íslenskra fugla. „Margir voru mjög spenntir fyrir þessari hugmynd og við vorum mjög ánægð með útkomuna.“

Einstakt fjaðrafok

Ánægjuna með bókina má greina víðar en hjá útgáfunni og segir Kristján Freyr að fyrsta upplag hafi strax flogið út eins og það lagði sig. „Ég byrjaði að vinna í bókabúð árið 2000 og er því búinn að vera í þessum bransa lengi. Ég hef í alvöru aldrei orðið vitni að annarri eins eftirspurn.“

Kristján Freyr segir að illa hafi gengið að koma nýju upplagi til Íslands. Um stund hafi sendingin til að mynda tafist í skipi í Rotterdam og þá hafi útgefendur ætlað að bregða á það ráð að leigja bíl og mannskap í Rotterdam til að fara um borð í skipið og sækja bækurnar.

Sú áætlun hafi þó strandað á ýmsum þáttum; illa hafi gengið að manna bílinn og að lokum hafi skipið ekki fengið heimild til að landa í borginni.

Mér finnst eins og ég sé í aukahlutverki í mynd með Bruce Willis.

Hann segir tilfinninguna líkasta því að vera í spennumynd. „Mér finnst eins og ég sé í aukahlutverki í mynd með Bruce Willis, með Die Hard-fílinginn í jólaljósunum,“ segir Kristján Freyr og ítrekar að hann muni ekki eftir öðru eins.

Fuglarnir koma fyrir helgi

Hann segir margvíslegar Covid-tengdar afleiður valda töfunum. „Maður hefur heyrt alls konar afsakanir í þessum bransa, sem maður heldur að séu ekki raunverulegar. Þetta er raunveruleiki sem við höfðum heyrt af en urðum svo sjálf fyrir barðinu á.“

Kristján Freyr segir að sagan endi þó vel, eins og í góðri jólamynd og sendingin sé væntanleg fyrir helgina. „Við förum að dreifa bókinni aftur fyrir helgi.“

Hann segist jafnframt ætla að grípa sér eintak fyrir sjálfan sig. „Sjálfur þekki ég ekki fuglana nógu vel.“

Sturluð netsala í fyrra

Kristján Freyr segir að almennt gangi bóksala vel, þrátt fyrir gríðarlegan fjölda nýrra titla. Hann segir þó bóksölu síðasta árs skekkja myndina. „Þetta Covid-ástand fyrir ári síðan var svo ofboðslega ýkt. Þá var enginn að ferðast og margir að kaupa bækur og líta inn á við.“

„Við héldum að enginn myndi kaupa bækur af því að enginn fór út í búð. En annað kom á daginn. Netsalan í nóvember í fyrra var bara sturluð. Það er varla hægt að bera þetta saman,“ segir Kristján Freyr og bendir á að netsala bóka nú sé líkari því sem áður tíðkaðist. Sala jólabóka hafi byrjað fyrir alvöru í desember og sé nú að þyngjast. nút.“

Vissi að bókin slægi í gegn

Margrét Jóna Guðbergsdóttir, vörustjóri hjá Pennanum Eymundsson, segir að síminn hafi ekki stoppað vegna fyrirspurna um Fagurt galaði fuglinn sá, „hvort sem er í búðunum eða á skiptiborðinu á Pennanum og á Facebook.

Þetta er bókaröð og þessar bækur hafa allar verið vinsælar. Þær eru til á mörgum heimilum og fólk kannast við þær,“ segir hún.

Margrét segir einnig að vinsældirnar stafi líka af því að efni bókarinnar „hitti Íslendinga algjörlega fyrir, að geta hlustað á fuglasöng.“ Hún bætir við að texti bókarinnar sé fallegur.