Bandaríska söngkona Britney Spears vill að Jodi Montgomery taki við af föður sínum Jamie Spears sem lögráðamaður sinn. Frá þessu greinir TMZ sem hefur undir höndunum ný skjöl sem lögfræðingar Britney lögðu fram við dómara í Los Angeles.
Jamie hefur verið lögráðamaður Britney í 13 ár eftir að söngkonan missti tökin á lífi sínu eins og frægt var á sínum tíma. Hún er nú 39 ára gömul og vill að Jodi, sem er ráðgjafi hennar, taki við hlutverki lögráðamanns af föður sínum. Samkvæmt gögnum sem lögfræðingar hennar lögðu fram fer hún fram á að Jamie segi af sér.
Sem lögráðamaður dóttur sinnar hefur Jamie haft yfirráð yfir nánast öllum þáttum lífs hennar, meðal annars fjármálum, ferli og samskiptum við heilbrigðisstarfsfólk. Hann gaf frá sér hlutverkið tímabundið í september fyir tveimur árum og síðan þá hefur Jodi sinnt hlutverkinu. Fram kemur í gögnunum að söngkonan sé afar sátt við störf hennar.
Jamie er þó enn lögráðamaður yfir eignum Britney ásamt Bessemer Trust. Hann gegnir því enn stóru hlutverki og hefur umsjón með Bessemer Trust með fjármálum Britney og viðskiptaákvörðunum.