Dómari í Los Angeles í Bandaríkjunum hefur synjað beiðni söngkonunnar Britney Spears um að fjarlægja Jamie föður hennar sem lögráðamann sinn. Lögfræðingar Spears lögðu beiðnina fram í nóvember, meðal annars með þeim röksemdum að stjarnan væri „hrædd við föður sinn“ og vildi losna við hann en hann hefur verið lögráðamaður hennar síðan 2008.
Þessi niðurstaða er ekki svar við vitnisburði Spears fyrir dómi í síðustu viku, þar sem hún flutti 23 mínútna ræðu þar sem hún sagði að henni hefðu verið gefin lyf, neydd til að troða upp gegn vilja sínum og ekki leyft að eignast börn. „Ég vil bara fá lífið mitt til baka,“ sagði hún við það tækifæri.
Spears hefur ekki lagt fram formlega beiðni um að rifta sambandinu við föður sinn eftir vitnisburð hennar. Dómurinn nú varðar beiðni sem lögð var fram í nóvember þar sem hún fór fram á að fyrirtækið Bessember Trust fengi eitt að gegna hlutverki tilsjónarmanns hennar. Þetta gat dómarinn Brenda Penny ekki samþykkt.
Lögmenn Jamie hafa farið fram á að ásakanir Britney um illa meðferð verði rannsakaðar af dómnum.