Bandaríska söngkonan Taylor Swift varð í gær fyrsta konan til að hljóta Icon verðlaunin, æðsta heiðurinn sem hægt er að fá á Brit verðlaunahátíðinni og fyrsta manneskjan til að hljóta þau í heimsflokki (e. Global Icon).

Verðlaunin eru ætluð þeim listamönnum sem eru taldir einstakir á heimsvísu. Aðeins þrír aðrir hafa hlotið sama heiður, Elton John, sem var fyrsti verðlaunahafinn til að hljóta verðlaunin, David Bowie og Robbie Williams.

Krúnuleikastjarnan Maisie Williams kynnti verðlaunin og sagði Taylor Swift hafa með tónlist sinni náð að sameina fólk um allan heim. Með því að vekja athygli á mikilvægum málefnum, eins og LGBTQ réttindum og kynferðisbrotamálum, hafi hún veitt öðrum mikinn innblástur.

Taylor Swift hefur síðastliðin ár heyjað baráttu gegn miklum öflum í tónlistarbransanum og barist ötullega fyrir því að tónlistarfólk eigi réttindi af eigin tónlist. Eftir að Scooter Braun keypti útgáfufyrirtækið Big Machine Label Group og þannig réttinn að tónlist Taylor Swift, ákvað hún að fara af stað í krefjandi verkefni: að taka upp allar plöturnar sínar upp a nýtt.

Í ræðu sinni á Brit verðlaunaathöfninni hvatti unga tónlistarmenn til að halda áfram að berjast fyrir réttindum sínum.

„Ég vil ítreka það fyrir alla sem eru að hlusta: Þú munt finna neikvæðni á öllum starfsvettvöngum. Ef þú mætir mótspyrnu þá ert örugglega að gera eitthvað nýtt. Ef þú finnur fyrir ókyrrð í loftinu og upplifir mikinn þrýsting þá ertu sennilega á leiðinni upp.“

Hér fyrir neðan má sjá ræðu Taylor Swift í heild sinni.