Rammagerðin hefur tekið í sölu boli sem eru afrakstur samstarfsverkefnis með söngkonunni Bríeti. Verkefnið hófst fyrir tveimur árum.

„Ég fór í myndatöku fyrir svolitlu síðan og nýtti mér þær myndir í að gera svona poppstjörnubol. Egó-bol með mynd af sjálfri mér,“ segir Bríet.

Bríet leggur áherslu á að hún snerti við öllum sköpunarþáttum sem tengjast tónlistarferlinum. „Varðandi tónleika, átfitt og kóreó­grafíu,“ segir hún. „Ég vil vera partur af hverju skrefi og beina efninu í þá átt sem ég vil að þetta fari.“

Verður að trúa á vöruna

Söngkonan segist hanna öll sín föt með Sigríði Ágústu Finnbogadóttur. „Þar er ómetanlegt samstarf,“ segir hún. Hvað söluvarninginn varðar hannar Þorgeir Blöndal þær vörur en Bríet kýs að vera partur af því ferli einnig. „Ég veit hvernig þetta fer fram og veit hvernig ég vil hanna hlutina,“ segir hún.

„Af því að á endanum er þetta undir mínu nafni og er eitthvað sem fólk tengir við mig og minn karakter. Þá þarf ég að trúa á það sjálf, áður en ég er að fara að selja það til neytandans.“

Bríet leggur áherslu á að hún sjálf þurfi að vera sátt. „Svo að þetta sé ekki bara eitthvað. Svo að þetta sé persónulegt og fólki líði eins og ég sé ekki bara að reyna að græða á því, heldur sé þetta gert til að hafa áhrif og breyta því hvernig hlutir hafa verið. Maður getur haft svo mikil áhrif þegar maður gerir eitthvað vel,“ segir hún.

Bríet hefur gríðarlegan áhuga á hönnun og hannaði bol með mynd af sjálfri sér á dögunum.
mynd/aðsend

Nýtt plakat í hverju upplagi

Vínylframleiðsla fyrir tveimur árum er að sögn Bríetar dæmi um slíkt verkefni.

„Þá langaði mig að gera eins mikið og hægt var með þeim pening sem var til þá. Að hafa plakat inni í þeim vínyl og að alltaf þegar kæmi nýtt upplag væri sitt hvert plakatið. Það væri eitthvað sem fólk tekur ekki endilega eftir eða veit af, en svo kannski myndi fólk átta sig á því. Einhver þannig gleði,“ segir hún.

Umræðan um kolefnisspor tískubransans verður sífellt háværari. Bríet segist meðvituð um þann þátt og hafa síðan í æsku sótt mikið í notuð föt. Hvatinn hafi verið sá að vilja ekki klæða sig eins og allir aðrir.

„Út frá því að vera að performera var þessi tilfinning, hvernig get ég búið eitthvað til sem verður nýtt fyrir augað? Þá var þetta, að taka gömul föt og klippa þau í sundur og búa til nýtt úr því,“ segir Bríet, að hvort tveggja sé það leið til að skapa eitthvað í stað þess að kaupa fjöldaframleiddan varning úr búð.

„Heldur eitthvað sem er þá endurnýtt og er ekkert hægt að fá annars staðar. Ég reyni mitt besta til að versla ekki við búðir sem eru í þessari svakalegu fjöldaframleiðslu, sem maður veit að börn eru á bak við,“ segir Bríet og vísar í óhuggulegan veruleika verksmiðjuframleiðslu textíliðnaðarins.

„Maður reynir sitt allra besta. En svo er bara ákveðið mikið sem maður getur gert sjálfur,“ segir hún og leggur áherslu á mikilvægi þess að styðja lítil fyrirtæki þó að það geti oft verið dýrara.“

Færeyjar og norðurferð

Það er nóg fram undan hjá Bríeti, meðal annars ferð til Færeyja. „Ég er að spila gigg í Færeyjum um helgina. Maður frá Færeyjum hafði samband og spurði hvort ég hefði áhuga.“

Bríet hélt það nú aldeilis.

„Ég ætla að taka þrenna tónleika: Í Þórshöfn, Syðri-Götu og í Vágum. Ég hef aldrei farið áður og þetta verður mjög áhugavert, ég hlakka til.“

Þá er jólatónleikahald á dagskrá hjá Bríeti, í Fríkirkjunni í Reykjavík annars vegar, og uppselt er á þá tónleika. Hins vegar í Hofi á Akureyri og segir söngkonan að enn sé nóg til af miðum fyrir norðan.