Þáttaröðin „Bridge fyrir alla“ sem sjónvarpsstöðin Hringbraut sýnir þessar vikurnar virðist hafa fallið vel í kramið hjá landsmönnum. Þátturinn er í fyrsta sæti í mældu áhorfi á Hringbraut í frumsýningarvikunni af öllum þáttum stöðvarinnar ef undan er skilið flaggskip sjónvarpsstöðin, Fréttavaktin. Áhorfendur á bridsþáttinn skiptu mörgum tugum þúsunda.

"Þetta kemur okkur þægilega á óvart, því við bridsfólk erum stundum spurð hvort við séum ekki fámennur hópur sérvitringa sem vinna sér það helst til gagns að muna allar spilagjafir í spilum serm við höfum spilað tíu ár aftur í tímann!" segir Björn Þorláksson, umsjónarmaður þáttanna. "En svona án gamans, er ég mjög þakklátur yfir jákvæðum viðtökum. Þetta verkefni hefði ekki tekist án aðstoðar hundraða spilara og fjölmargra velunnara íþróttarinnar."

Björn Eysteinsson, fyrirliði þegar Ísland var heimsmeistari á síðustu öld í Yokohama í opnum flokki í brids, er ánægður með framtakið: „Í þættinum kemur fram sú félagslega jákvæðni sem einkennir bridgespilið.“

„Það er líka fróðlegt að heyra um margar skemmtilegar og ólíkar hliðar bridgespilsins, upplifun hvers og eins. Sem dæmi hvernig bridgespilið virkar sem hugarleikfimi sem eykur lífsgleði og andlegt atgervi út alla ævina,” segir Björn.

Í kvöld verður þriðji þátturinn af fimm af „Bridge fyrir alla“ sýndur klukkan 19.30. Guðmundur Snorrason margfaldur landsliðsmaður og Helga Helga Sturlaugsdóttir og Sigþrúður Blöndal, sem báðar hafa spilað í kvennalandsliðum Íslands í brids, verða þáttastjórnanda til halds og trausts. Farið verður í grunnsagnir, úrspil, varnarreglur og fleira, sem dæmi hvað einkennir góðan makkerskap. Björn fær skammir í þættinum fyrir að gefa spil í vörn.

Alla þætti af "Bridge fyrir alla" má einnig nálgast á vefnum hringbraut.is.