Áður fyrr voru það helst dýraréttindasinnar sem skvettu rauðri málningu á fólk í pelsum sem komu upp í huga margra þegar talað var um skuggahliðar loðdýraræktar. En tímarnir breytast og mennirnir með, og nú virðast margir hverjir hægt og rólega vera komnir á þá skoðun að ekki sé siðferðilega réttlætanlegt að styðja við iðnað af þessu tagi, ekki síst í ljósi þess hversu vandaðir staðgenglar eru nú á boðstólum.

Þrátt fyrir að hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda hefur notkun loðfelda löngum verið umdeild. Á undanförnum árum, og ekki síst síðastliðnum áratug, hafa orðið miklar og örar breytingar í þessum málaflokki. Nú hafa mörg lönd víða um heim ýmist nú þegar sett fram bann við loðdýraframleiðslu eða eru í miðju ferli.

Gerviloðfeldir njóta sífellt meiri vinsælda eins og greina má hjá ófáum tískuframleiðendum. NORDICPHOTOS/GETTY

Þá hafa einnig mörg af helstu tískuhúsunum, og tískurisunum, smám saman tekið ákvörðun um að hætta sölu á ekta loðfeldum. Sem dæmi má nefna Tom Ford, Gucci, Armani, Calvin Klein, Vivienne Westwood og fleiri.

Stigvaxandi samhljómur milli landa

Það er misjafnt á milli landa hversu langt þau eru komin í þessum hugleiðingum. Fyrstu löndin til þess að banna loðdýrarækt voru Bretland, árið 2000, og Austurríki, árið 2004, og hafa mörg önnur Evrópulönd fylgt í kjölfarið.

Í Króatíu var ákveðið að banna loðdýrarækt árið 2006 og voru bændum gefin tíu ár til aðlögunar. Í nágrannalandi Króatíu, Serbíu, var ákveðið að banna loðdýraframleiðslu árið 2009 og var þar einnig gefinn tíu ára aðlögunartími. Stjórnvöld í Serbíu voru beitt miklum þrýstingi af hagsmunaaðilum í loðdýrarækt á meðan þetta stóð yfir en dýraréttindasamtök gáfu sig ekki.

Önnur Evrópulönd sem hafa þegar byrjað þetta ferli eru til dæmis Holland, Slóvenía, Makedónía, Tékkland, Noregur, Lúxemborg og Belgía.

Þá hafa stórborgir í Bandaríkjunum á borð við Los Angeles og San Fransisco einnig lýst yfir fyrirhuguðu banni við sölu á loðfeldum. Í desember síðastliðnum var enn fremur lagt fram frumvarp þess efnis að bannað verði að bæði framleiða og selja loðfeldi í Kaliforníu. Gangi það eftir yrði það fyrsta ríkið í Bandaríkjunum til þess að stíga þetta skref.

Þó að vissulega sé víða enn langt í land þá bendir ýmislegt til þess að framleiðsla af þessu tagi muni á næstu áratugum leggjast af en á síðasta ári var til dæmis fjallað um rekstrarerfiðleika íslenskra loðdýraræktenda.