Guðmundur Felixson ólst upp við skemmtilega og öðruvísi jólahefð, því feður hans tóku upp á því fyrir tuttugu árum eða svo að láta hvern fjölskyldumeðlim skreyta sitt jólatré. Trén eru eins konar listaverk og hefðin hefur þróast þannig að vinir og vandamenn fá að giska á hver eigi hvaða tré.

„Þetta byrjaði þegar við systkinin vorum lítil, eftir að fjögur lítil jólatré höfðu verið keypt á jólatrjáamarkaði, og pabbar okkar tóku upp á því að hver fjölskyldumeðlimur myndi skreyta sitt eigið jólatré,“ segir Guðmundur Felixson, leikari og meðlimur spunahópsins Improv Ísland, þegar hann útskýrir skemmtilega öðruvísi jólahefð sem þróast hefur hjá fjölskyldu hans undanfarna tvo áratugi.

„Við skreyttum öll okkar tré en hefðin breyttist fljótlega út í smá vitleysu þar sem trén voru orðin einhvers konar listaverk frekar en raunveruleg jólatré. Útfærslurnar hafa verið eins mismunandi og þær eru margar og ég man að eitt sinn klæddi ég systur mína í græna peysu og setti á hana jólaseríu. Hún var þá mitt jólatré.“

Listrænu jólatrjánum hefur í gegnum árin fjölgað í takti við stækkun fjölskyldunnar og nú þegar systkinin bæði eru komin með maka og börn eru trén sem gerð eru ár hvert orðin átta.

Dublo tré og annaðí anda covid.
Mynd/Samsett

Gaman að sjá tré hinna

Aðspurður segir Guðmundur mikla leynd hvíla yfir hönnun trjánna, sérlega innan fjölskyldunnar, áður en þau eru afhjúpuð. „Við segjum ekki frá því sem við erum að plana og mikil spenna byggist upp fyrir deginum,“ segir Guðmundur.

Fjölskyldan kemur saman heima hjá feðrum Guðmundar á Túnsbergi, einn dag í desember, þar sem hver mætir með sinn efnivið og útfærir sitt tré í sínu horni hússins.

Guðmundur bætir við að hefðin feli í sér að gestkomandi í Túnsbergi fá að giska á hver hafi gert hvaða tré en ljóstrað er upp um þau leyndarmál á jóladag á Facebook-síðu Felix Bergssonar, föður Guðmundar.

„Þá kemur í ljós hver bjó til hvaða tré en það hefur engum tekist að giska á rétt, hvað þá nú þegar trén eru orðin átta,“ segir Guðmundur í jólastuði.

Hugmyndirnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar.
Mynd/Samsett
Skemmtunin felst einnig í því að láta fólk giska hver hafi gert hvaða tré.
Mynd/Samsett